Theresa May verður að öllum líkindum næsti formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands. Hún hlaut 199 atkvæði í annarri umferð formannskjörsins í flokknum, sem fór fram í dag. Næst á eftir henni kom Andrea Leadsom, sem hlaut 84 atkvæði, og í þriðja sæti varð Michael Gove, sem fékk 46 atkvæði og verður ekki með í næstu umferð.
Valið mun því standa á milli tveggja kvenna, May og Leadsom, þegar þriðja umferðin fer fram í næstu viku. Það virðist þó fátt geta komið í veg fyrir að May verði forsætisráðherra, stuðningur við hana er einfaldlega svo mikið meiri.
May sagði við blaðamenn fyrir utan þingið nú fyrir skömmu að hún væri mjög ánægð með góða kosningu og mikinn stuðning. Þetta sýndi að Íhaldsflokkurinn geti verið sameinaður, og undir hennar forystu myndi flokkurinn gera það á ný.
Michael Gove ríður ekki feitum hesti frá formannskjörinu, sem hann tilkynnti öllum að óvörum að hann ætlaði að taka þátt í skömmu áður en framboðsfresturinn rann út í síðustu viku. Með því líta margir svo á að hann hafi svikið vin sinn og baráttubróður Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóra London, sem hafði ætlað sér í formannsframboð með hjálp Gove. Johnson lýsti í vikunni formlega yfir stuðningi við Andreu Leadsom, og sagði hana hafa allt sem til þyrfti til að leiða Bretland. Talið er að stuðningur hans hafi hjálpað henni mikið og fylkt stuðningsmönnum þess að yfirgefa ESB að baki henni.