Brot Mjólkursamsölunnar (MS) á samkeppnislögum er enn alvarlegra en Samkeppniseftirlitið hafði áður talið, og lagt til grundvallar í eldri ákvörðun sinni um brot fyrirtækisins. Ef framleiðsludeild MS hefði sjálf þurft að kaupa hrámjólk á því verði sem fyrirtækið seldi samkeppnisaðilum sínum hana þá hefði sú starfsemi MS verið rekin með umtalsverðu tapi. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að sekta MS um 480 milljónir króna, sem gerð var opinber í dag.
Samkeppniseftirlitið kemst þar að þeirri niðurstöðu að MS hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum (t.d. Mjólku og síðar Kú) hrámjólk til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS og aðilar tengdir fyrirtækinu, sérstaklega Kaupfélag Skagfirðinga (KS) fengu hráefnið undir kostnaðarverði.
Samkeppniseftirlitið sektaði MS upphaflega fyrir umrædd brot í september 2014. Þá var sektin 370 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í desember 2014 að fella yrði úrskurðinn úr gildi, vegna þess að MS upplýsti ekki eftirlitið um samning á milli fyrirtækisins og Kaupfélags Skagfirðinga, sem á hlut í MS og er einn þeirra aðila sem fékk hrámjólk á lægra verði. Áfrýjunarnefndin taldi þess vegna að henni væri því skylt að vísa málinu aftur til Samkeppniseftirlitsins., sem rannsakaði málið aftur og komst að nýrri niðurstöðu um að MS hefði brotið samkeppnislög.
Sú niðurstaða var að brot MS væri enn alvarlegra en áður hafði verið talið og því var sektin hækkuð úr 370 milljónum króna í 480 milljónir króna.
Skaðaði neytendur og bændur
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að MS hafi brotið með mjög alvarlegum hætti gegn samkeppnislögum. „Keppinautar MS þurftu bæði að sæta því að fá grundvallarhráefni á óeðlilega háu verði og að MS sjálf og tengdir aðilar fengju þetta hráefni á mun lægra verði. Var ekki nóg með að KS og Mjólka II fengju hrámjólkina á mun lægra verði en keppinautar þeirra heldur var hún auk þess verðlögð af MS undir kostnaði. Var þetta til þess fallið að veita þeim verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum. Vað það tilgangur þessara aðgerða MS. Með þessu móti var geta keppinauta til þess að keppa við MS og tengd félög skert með alvarlegum hætti og markaðsráðandi staða MS varin. Er það til þess fallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda og bænda. Þá liggur fyrir að MS veitti Samkeppniseftirlitinu rangar upplýsingar í hinu fyrra máli og lét undir höfuð leggjast að upplýsa eftirlitið um mikilvæg gögn. Hefur það tafið úrlausn málsins og skaða samkeppni.“