Samkeppniseftirlitið telur brýnt að að mæla fyrir um aðskilnað á þeirri starfsemi Mjólkursamsölunnar sem felst í því að afla og selja hrámjólk og annarrar starfsemi fyrirtækisins. Í ljósi meðalhófs telur Samkeppniseftirlitið þó ekki þörf á því að setja fram nákvæm fyrirmæli um með hvaða hætti skuli framkvæma og útfæra þennan aðskilnað, en fer fram á að óháður eftirlitsaðili verði skipaður til að fylgjast með því að útfærsla Mjólkursamsölunnar nái þeim markmiðum að jafnræðis, hlutlægni og gagnsæis sé gætt gagnvart öllum viðskiptavinum.
Þessi eftirlitsaðili verður tilnefndur af Mjólkursamsölunni en Samkeppniseftirlitið þarf að samþykkja hann og formlega skipa. Því hefur Mjólkursamsalan í raun verið svipt forræði yfir viðskiptum sínum með hrámjólk. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna misnotkunar Mjólkursamsölunnar á markaðsráðandi stöðu sinni, sem birt var í gær. Mjólkursamsalan þarf að greiða 480 milljóna króna stjórnvaldssekt vegna brota sinna.
Þarf að aðskilja starfsemi sína
Mjólkursamsalan tekur við allri hrámjólk sem framleidd er á Íslandi. Brot fyrirtækisins fólust í því að selja eigin framleiðsludeild og Kaupfélagi Skagfirðinga (KS), sem á hlut í Mjólkursamsölunni, hrámjólk undir kostnaðarverði, en öðrum samkeppnisaðilum sem þurftu að versla slíka af fyrirtækinu hana á mun hærra verði.
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt var í gær segir að aðskilnað á milli þeirrar starfsemi fyrirtækisins sem felst í því að afla og selja hrámjólk og annarrar starfsemi félagsins. „Er það gert til þess að stuðla annars vegar að því að öll viðskipti, milli þeirrar einingar MS sem annast mun sölu á hrámjólk til þess hluta MS sem annast framleiðslu og sölu á mjólkurvörum, eigi sér stað á armslengdar grundvelli og hins vegar að umrædd hrámjólkureining MS gæti jafnræðis, hlutlægni og gagnsæis gagnvart öllum viðskiptavinum (þ.m.t. gagnvart framleiðsluhluta MS).”
Með vísan til ofangreinds telur Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt að grípa til aðgerða samkvæmt 16. grein samkeppnislaga, en hún veitir eftirlitinu víðtækar heimildir til inngripa hjá þeim sem talið er að hafi brotið lögin. Til að gæta meðalhófs þá telur Samkeppniseftirlitið þó ekki þörf á því að setja fram nákvæm fyrirmæli um með hvaða hætti skuli framkvæma og útfæra þennan aðskilnað. Aðeins er mælt fyrir um það að aðskilnaðurinn dugi til þess að unnt sé að fylgjast af skilvirkum og trúverðugum hætti með því að fyrirmælunum, sem fjalla meðal annars um jafnræði í ákvörðunum, sé í raun fylgt eftir. „Samkvæmt þessu hefur MS umtalsvert svigrúm til þess að ákveða með hvaða hætti þessum aðskilnaði verður best fyrir komið innan fyrirtækisins. Rétt er að taka fram að í þessu felst m.a. engin krafa um að umrædd heildsölustarfsemi verði komið fyrir í sérstökum lögaðila. Ef hins vegar óháður eftirlitsaðili, sem mælt er fyrir um í ákvörðunarorði, telur að útfærsla MS á umræddum aðskilnaði nái ekki markmiði þessarar ákvörðunar skal hann vekja athygli á því og mun Samkeppniseftirlitsins bregðast við slíkri ábendingu.“Óháður aðili metur jafnræðið
Í ákvörðunarorðum Samkeppniseftirlitsins segir því að Mjólkursamsalan skuli fela óháðum aðila að leggja árlega mat á það hvort félagið gæti jafnræðis í viðskiptum með hrámjólk í samræmi við fyrirmæli ákvörðunarinnar. Þar segir enn fremur: „Mjólkursamsalan ehf. skal innan tveggja mánaða frá dagsetningu þessarar ákvörðunar tilkynna Samkeppniseftirlitinu um tilnefningu umrædds óháðs aðila. Niðurstöður hins óháða aðila skulu vera rökstuddar og í skriflegu formi og aðgengilegar Samkeppniseftirlitinu ef það kallar eftir þeim. Telji hinn óháði aðili að aðskilnaðurinn[...]sé ekki í samræmi við fyrirmæli þeirrar greinar skal hann hið fyrsta vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á því.“