Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra ætlar ekki að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sitjandi formanni flokksins. Hún reiknar þó með því að flokksþingi flokksins, sem á að óbreyttu að fara fram eftir ár, verði flýtt og að það verði haldið fyrir kosningar sem fyrirhugaðar eru í haust. Þetta kom fram í viðtali við Lilju í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun.
Hún sagði að Sigmundur Davíð væri nú að tala við flokksmenn út um allt land og að hún haldi að þau samtöl gangi vel fyrir sig. Sjálf segist Lilja ekki enn hafa ákveðið hvort hún ætli að bjóða sig fram í komandi kosningum en að það væri spennandi möguleiki. Lilja situr sem utanþingsráðherra eftir að hafa verið valin af Framsóknarflokknum til að koma inn í ríkisstjórn þegar Sigmundur Davíð vék úr stóli forsætisráðherra í kjölfar Wintris-málsins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, hefur einnig sagt opinberlega að hann ætli ekki að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð ef sá síðarnefndi ákveður að bjóða sig aftur fram til formanns.
Sigmundur Davíð var í viðtali í sama þætti 22. maí síðastliðinn, þegar hann snéri til baka eftir frí sem hann fór í eftir að hafa sagt af sér sem forsætisráðherra. Þar sagði Sigmundur Davíð að hann ætlaði sér að halda áfram í stjórnmálum, að hann ætlaði að bjóða sig aftur fram sem formaður Framsóknarflokksins á ný og til þings í haust. Hann sagðist gera ráð fyrir því að hann njóti áfram stuðnings til þess, og það kæmi honum á óvart ef flokkurinn hans ætlaði að „láta þessa atburðarás“ hafa áhrif á það, þegar ráðist hefði verið að honum.
Framsóknarflokkurinn hélt miðstjórnarfund í byrjun júní. Að honum loknum sögðu flestir þingmenn flokksins að þeir reiknuðu með að Sigmundur Davíð myndi leiða hann áfram. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi sumt sem fram fór á fundinum harðlega og sagðist aldrei hafa orðið vitni viðlíkri foringjadýrkun og virtist vera hjá „fámennum en duglegum hópi innan Framsóknarflokksins“. Það væri töluverð undiralda í flokknum og hörð gagnrýni hefði komið fram á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, á miðstjórnarfundinum.