Theresa May verður forsætisráðherra Bretlands á miðvikudaginn. Þetta staðfestir David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér rétt í þessu.
Hann ætlar að halda sinn síðasta ríkisstjórnarfund á morgun og svara spurningum þingmanna í spurningatíma forsætisráðherra í síðasta skipti á miðvikudag. Eftir það ætlar hann að fara til Elísabetar drottningar og segja formlega af sér.
„Ég held að Andrea Leadsom hafi tekið algjörlega rétta ákvörðun með því að stíga til hliðar. Það er ljóst að Theresa May nýtur yfirgnæfandi stuðnings þingflokks Íhaldsflokksins. Ég er líka himinlifandi með að Theresa May verði næsti forsætisráðherra. Hún er sterk, hún er hæf, hún er meira en fær um að vera sá leiðtogi sem þjóðin mun þurfa á næstu árum og hún mun njóta fulls stuðnings frá mér,“ sagði Cameron í yfirlýsingu sinni.
Tveir stjórnarandstöðuflokkar í breska þinginu, Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar, hafa nú í dag kallað eftir því að boðað verði til kosninga í Bretlandi. „Nú lítur út fyrir að að við munum sjá krýningu nýs forsætisráðherra úr Íhaldsflokknum. Það er nauðsynlegt með tilliti til óvissunnar sem Brexit hefur valdið að ríkið þarf að hafa lýðræðislega kjörinn forsætisráðherra,“ sagði Jon Trickett hjá Verkamannaflokknum.
„Það er einfaldlega óhugsandi að Theresa May verði krýnd forsætisráðherra án þess að hafa einu sinni unnið kosningu innan eigin flokks, hvað þá á landsvísu. Það verða að vera kosningar,“ segir Tim Farron, leiðtogi Frjálslyndra demókrata.
Hins vegar hefur Íhaldsflokkurinn ekki gefið neitt til kynna um kosningar, heldur hefur einmitt verið hamrað á því, síðast í ræðu Andreu Leadsom í morgun, að aðeins 13 mánuðir séu síðan Íhaldsflokkurinn fékk sterka kosningu og hreinan meirihluta í þinginu.