Bernie Sanders, sem sóttist eftir því að verða forsetaefni Demókrataflokksins, hefur lýst formlega yfir stuðningi við Hillary Clinton, mótherja sinn um útnefningu flokksins. Löngu er orðið ljóst að Clinton myndi hljóta tilnefningu flokksins, og Sanders hefur viðurkennt það, en hann hefur ekki lýst formlega yfir stuðningi við hana fyrr en nú.
Sanders og Clinton komu fram saman á kosningafundi í New Hampshire í dag. Sanders vann forkosningarnar í New Hampshire með miklum yfirburðum í febrúar og nýtur mikils stuðnings þar.
„Ég er kominn hingað til þess að gera það eins ljóst og mögulegt er hvers vegna ég er að lýsa yfir stuðningi við Hillary Clinton og hvers vegna hún verður að verða næsti forseti okkar,“ sagði Sanders á fundinum. „Ég er stoltur af okkar kosningabaráttu hér í New Hampshire og um landið allt. Barátta okkar skilaði sigri í forkosningum og á kjörfundum í 22 ríkjum.“ Þegar allt komi til alls á landsfundi demókrata muni koma í ljós að Sanders hafi fengið um 1,900 kjörmenn. „Miklu meira en næstum því allir héldu að við gætum unnið.“
Það væri hins vegar ekki nóg, Clinton færi inn á landsfundinn með fleiri kjörmenn og miklu fleiri ofurkjörmenn. Hún hefði því sigrað hann og hann óskaði henni til hamingju með það. „Ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja að hún verði næsti forseti.“
Um helgina fóru fram viðræður á milli þeirra um breytingar á stefnu Demókrataflokksins, sem urðu til þess að Sanders ákvað að styðja Clinton. Með viðræðunum fékk Sanders fram breytingar á stefnunni í loftslagsmálum, lágmarkslaunum og maríjúana, meðal annars.
Sanders og Clinton háðu mjög harða kosningabaráttu og hefur ekki beinlínis verið vel til vina. Engu að síður sagði Sanders fyrir nokkru síðan að hann myndi kjósa Clinton í kosningunum í nóvember. „Ég held að það rétta í stöðunni sé að gera allt sem í mínu valdi stendur til að fella Donald Trump.“ Það verði hræðilegt ef Trump verði kjörinn forseti. „Við þurfum ekki forseta sem elur á fordómum, gerir lítið úr Mexíkóum og konum, og trúir ekki á loftslagsbreytingarnar, jafnvel þó allir vísindamenn bendi á að hér sé um alheimsvandamál,“ sagði Sanders.