Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, fær 29 prósent launahækkun í kjölfar nýlegs úrskurðar kjararáðs og verður með 1.340 þúsund krónur á mánuði eftir að hana. Mesta launahækkun allra í kjölfar úrskurðarins fær Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður kærunefndar útlendingamála. Laun hans hækka um 48 prósent. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Þar segir að Kristín hafi sent bréf til kjararáðs og að vitnað sé í bréf hennar í úrskurði ráðsins. Í bréfinu segir Kristín að álag á Útlendingastofnun hafi vaxið gífurlega samhliða fjölgun hælisleitenda og nýjum verkefnum. Áreiti fjölmiðla sé mikið og að það falli til bæði um helgar og á kvöldin. Því sé starf forstjóra erfitt og mjög íþyngjandi. Þess vegna vildi hún fá hærri laun.
Með hærri laun en ráðherrar
Laun forstöðumanna nokkurra ríkisstofnana hækkuðu gífurlega mikið eftir að nýr úrskurður kjararáðs um kjör þeirra lá fyrir. Hækkanirnar eru afturvirkar til allt að 1. desember 2014 og bætast ofan á 7,15 prósent hækkun sem tók gildi um síðustu mánaðarmót. Í Fréttablaðinu kemur fram að hækkanirnar komi til eftir að forstöðumennirnir sjálfir eða ráðuneyti þeirra óskuðu eftir því að launin yrðu hækkuð.
Samkvæmt ákvörðun kjararáðs í nóvember í fyrra hækkuðu laun alþingismanna og ráðherra. Eftir þá hækkun, og viðbótarhækkun sem tók gildi í sumar, er þingfarakaup 763 þúsund krónur á mánuði og laun ráðherra annara en forsætisráðherra 1.347 þúsund krónur á mánuði. Margir forstöðumenn ríkisstofnanna eru nú með umtalsvert hærri laun en allir ráðherrar landsins. Þannig er Birgir Jakobsson landlæknir með 1,6 milljónir króna á mánuði eftir að kjararáð úrskurðaði um hækkun launa hans og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri er einnig með þá upphæð. Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, hækka um 35 prósent í 1.340 þúsund á mánuði og Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, verður með sömu tölu.
Vilja breyta kjörum sveitastjórarmanna
Í Morgunblaðinu er síðan greint frá því að stjórn Sambands íslenskra sveitafélaga hafi sent öllum sveitastjórnum í landinu „leiðbeinandi viðmið“ um að kjör sveitastjórnarmanna verði þannig að þeir fái 78 prósent þingfarakaups, 595 þúsund krónur, á mánuði fyrir störf sín sé miðað við að þeir séu í fullu starfi sem sveitarstjórnarmenn. Í dag eru einungis 15 sveitarstjórnarmenn í fullu starfi, en það eru borgarfulltrúar Reykjavíkur.