Leiftursnöggt hófst áhlaup uppreisnarhóps innan tyrkneska hersins, og voru valin skötmörk hjá sérsveit lögreglunnar í Ankara og Istanbul fyrstu skotmörkin, eftir að uppreisnarmenn komust yfir þyrlur og herþotur. Síðan voru samgönguæðar stöðvaðar með hervaldi, Ataturk-flugvöllurinn í Istanbúl hertekinn og lokaður, og árás gerð á þinghús og fleiri opinberar byggingar. Yfirlýsingar bárust svo frá hernum, á internetinu, um að herinn hefði nú náð völdum í Tyrklandi.
Upplýsingar berast jafn óðum frá vettvangi, en nú liggur ljóst fyrir að valdaránið misheppnaðist, og stjórnvöld í Tyrklandi, með forsetann Erdogan í broddi fylkingar, hafa náð valdaþráðunum aftur í sínar hendur.
En hvað er vitað um þessu sögulegu valdaránstilraun?
Samkvæmt upplýsingum sem breska ríkisútvarpið BBC hefur miðlað, þá er tala látinna nú komin upp í 265, stærstur hluti úr hópi uppreisnarmanna.Tæplega 1.440 hafa særst og 2.843 verið handteknir. Tölurnar hafa hækkað hratt, svo heildarmyndin á enn eftir að skýrast.
Tyrkneska þingið og forsetahöllin í Ankara voru meðal skotmarka uppreisnarmanna, strax í upphafi valdaránstilraunarinnar. Um 200 óvopnaðir hermenn sáust yfirgefa höfuðstöðvar hersins í Ankara í morgun þar sem þeir höfðu gefist upp fyrir lögreglu. Þá gáfust um 50 uppreisnarmenn, sem haldið höfðu annarri tveggja meginbrúa yfir Bosporussundið, upp í nótt.
Ennþá er ekki orðið ljóst, hver eða hverjir, skipulögðu tilraunina en augljóslega hefur mikill tími farið í að skipuleggja aðgerðina, og fjöldi hermanna sem hefur verið handtekinn, tæplega þrjú þúsund, sýnir að stór hópur hermanna var tilbúinn að taka þátt í valdaráni gegn ríkjandi yfirvöldum. Þetta sýnir glögglega hversu eldfimt ástand er í Tyrklandi þessi misserin.
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, segir 15. júlí vera „svartan dag“ í sögu landsins. Valdaránstilraunin muni marka sögu landsins, og að þeir sem að „árásinni á lýðræðið“ stóðu, eins og hann komst að orði, muni fá að finna fyrir réttlætinu.