Fjárfestirinn Jón Von Tetzhner hefur keypt stóran hlut í fjölmiðlafyrirtækinu Hringbraut, sem rekur samnefnda sjónvarpsstöð, útvarpsstöð og heldur úti vefsíðu. Hann verður annar stærsti eigandi fyrirtækisins á eftir Guðmundi Erni Jóhannssyni, stjórnarformanni þess. Auk þeirra tveggja á Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Hringbrautar, hlut í fyrirtækinu. Í tilkynningu kemur fram að gera megi ráð fyrir að fleiri hluthafar verði kynntir til sögunnar á næstunni en með kaupum Jóns sé fyrsta þrepi fjármögnunar lokið.
Samkvæmt skráningu á eignarhaldi Hringbrautar á heimasíðu fjölmiðlanefndar, sem er frá því í nóvember í fyrra, var Guðmundur Örn áður eigandi alls hlutafjár.
Jón segir að það hafi verið áhugavert að fylgjast með hvernig Hringbraut hafi á rúmu ári náð að verða stærsta sjónvarpsstöð landsins sem aðeins sýnir innlent efni. „Ég tel mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að gróska sé til staðar í samfélagsumræðu og í dag er hægt að reka ljósvakamiðla á mun hagkvæmari hátt en áður var. Í þessu geta falist mörg tækifæri.” Jón átti áður hlut í Spyr, fyrirtækis sem Rakel Sveinsdóttir stýrði.
Jón von Tetzhner er oft kenndur við Operu, norskt fyrirtæki sem bjó til samefndan vefvarfa. Hann seldi sig út úr því fyrirtæki fyrir nokkrum árum og á síðustu árum hefur hann fjárfest í nokkrum íslenskum sprotafyrirtækjum á borð við Örnu, Hringdu, Dohop og Spyr.is og Innovation House. Auk þess stofnaði Jón Vivaldi Technologies, sem þróar Vivaldi vafran.
Jón var í ítarlegu viðtali við Kjarnann í fyrra. Það má lesa hér.