Verslun Costco, sem opna átti í Kauptúni Garðabæ á þessu ári, verður ekki opnuð fyrr en í fyrsta lagi í marslok 2017. Ástæða seinkunnar á opnun fyrstu verslunar bandaríska smásölurisans hérlendis er vegna tæknilegra atriða, meðal frágangs á kaupasamningi. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Fyrstu fréttir um áhuga Costco á því að opna verslun á Íslandi bárust árið 2014. Það sumar kannaði fyrirtækið meðal annars hvort það myndi fá að selja áfengi í búðum og hvort það fengi að flytja inn ferskt kjöt og lyf til að selja í verslun sinni, en allt þetta er harðbannað á Íslandi sem stendur. Engar slíkar undanþágur fengust.
Í janúar 2015 var síðan staðfest að Costco, sem er önnur stærsta smásöluverslunarkeðja í heimi, ætlaði sér að opna risaverslun í Garðabæ og að samningar þess efnis væri langt komnir. Þá stóð til að verslunin myndi opna á fyrri hluta ársins 2016 en síðar var sú dagsetning færð aftur til nóvembermánaðar. Nú hefur henni verið ýtt enn aftar.
Í skýrslu sem fyrirtækið Zenter vann um komu Costco til Íslands í byrjun júnímánaðar sagði að innkoma fyrirtækisins myndi umbylta íslenska markaðnum. Costco byði að jafnaði upp á 30 prósent lægra vöruverð en gengur og gerist hérlendis og viðmið þess í álagningu er að leggja einungis 15 prósent ofan á vörur.
Í verslunum Costco eru seldar allskyns vörur. Þar er meðal annars boðið upp á matvöru, heimilistæki, raftæki, húsgögn, dekk, föt, eldsneyti, skartgripi og gleraugu. Því verða áhrif innkomu fyrirtækisins á íslenska smásölu nokkuð víðtæk og ná yfir ansi marga undirmarkaði hennar. Til að átta sig á stærðargráðu fyrirtækisins Costco þá má benda á að það veltir um það bil tíu sinnum meira en íslenska hagkerfið á ári.