Hugmynd Andra Snæs Magnasonar um að slökkva ætti ljósin í Reykjavík svo að fólk gæti séð stjörnurnar og norðurljósin er aðalatriði í nýrri auglýsingaherferð kóreska raftækjarísans LG. Hugmyndina setti Andri Snær fram í bók sinni Draumalandinu sem kom fyrst út árið 2006 á íslensku og árið 2008 á ensku.
Í nýrri auglýsingaherferð LG þar sem ný gerð sjónvarpa frá fyrirtækinu er kynnt er Reykjavík og himininn yfir Íslandi í aðalhlutverki. Í kynningarmyndbandi fyrir nýju herferðina sést að auglýsingin var tekin upp hér á landi að vetri til, enda er erfitt að greina norðurljós á björtum sumarkvöldum.
Í tilefni af herferðinni hefur LG leigt tónlistarhúsið Hörpu annað kvöld og stendur fyrir tónleikum og ljósasýningu. Fram koma íslensku tónlistarmennirnir Ólafur Arnalds og Ásgeir Trausti og elektróníska ofurbandið GusGus.
Á vef Hörpu má lesa um dagskrá tónleikanna. Þar segir að tónleikasalurinn Silfurberg sé þegar óþekkjanlegur vegna þess að búið er að skreyta hann „bak og fyrir með sjónvarpsskjáum frá LG“ með það að markmiði að lýkja eftir norðurljósastemningu.
Andri Snær vakti athygli á þessum viðburði á Facebook-síðu sinni í dag. Í Draumalandinu setti hann fram margar hugmyndir sínar um hvernig Íslendingar gætu gengið betur um náttúru landsins og notið hennar betur. Þremur árum eftir að bókin kom fyrst út var gerð heimildarmynd eftir forskrift bókarinnar og kom hún út árið 2009. „[S]vona getur ein blaðsíða í bók orðið að stórtónleikum á vegum LG í Kóreu 10 árum síðar,“ skrifar Andri Snær á Facebook.
Nokkrum sinnum hefur verið slökkt á götuljósum í bæjum og borgum Íslands síðan bók Andra Snæs kom út fyrir tíu árum. Það var fyrst gert 28. september 2006 þegar götuljós voru slökkt í 30 mínútur á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ og á Akranesi í tilefni af opnun Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík.