Vextir á Íslandi eru alls ekki of háir miðað við hagvaxtar- og verðbólguhorfur. Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri við Morgunblaðið í dag. Hann segir engan snýa við peningastefnunni sem unnið er eftir í blindni eftir „eitthvert mat á jafnvægisvöxtum.“ Út frá hagvaxtargetu upp á 2,5 til 2,7 prósent fáist jafnvægisvextir sem séu á bilinu 5 til 5,3 prósent. „Stýrivextir Seðlabankans eru 5,75 prósent og þannig yfir jafnvægisvaxtatölunni, sem er bara eðlilegt, þegar komin er spenna í kerfið og verðbólguvæntingarnar eru enn þá, því miður, fyrir ofan markmið, þótt verðbólgan sé enn fyrir neðan markmið Seðlabankans.“
Már endurtók því að mestu þá skoðun sem hann setti fram á fyrsta fundi Þjóðhagsráðs, sem haldinn var í byrjun júní, þar sem hann sagði að engum væri greiði gerður með því að vextir á Íslandi yrðu lækkaðir án þess að innstæða væri fyrir því. Hægt væri að lækka vexti hérlendis ef verðbólguvæntingar væru í takti við verðbólgumarkmið, en svo er ekki sem stendur. Því þurfi að sýna þolinmæði.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði við sama blað í gær að hann og samstarfsmenn hans fyndu það hjá Seðlabankanum að þeir væru „algjörlega blindir í trú sinni á áhrifamátt vaxtatækisins, en þeir hafa á umliðnum árum þurft að viðurkenna, að það eru takmörk fyrir því hversu miklu hærra vaxtastigið á Íslandi getur verið, borið saman við nágrannalöndin, áður en vaxtahækkanir eru farnar að hafa mjög óæskileg áhrif.“
Vaxtamunaviðskipti hafa stöðvast
Már ræðir einnig nýtt stjórntæki Seðlabankans, reglu um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, sem tók gildi snemma í síðasta mánuði. Tilgangur hennar var að draga úr álitleika svokallaðra vaxtamunaviðskipta. Í þeim felst að spákaupmenn ná sér í fjármagn á lágvaxtarsvæðum, sem eru t.d. flest Evrópulönd, og fjárfesta í skuldabréfum á hávaxtasvæðum, t.d. Íslandi. Vaxtamunurinn á því sem þeir þurfa að greiða fyrir að taka lánið í lágvaxtarlandinu og það sem þeir fá greitt í vexti af skuldabréfunum á Íslandi, myndar síðan umtalsverðan hagnað.
Á fundi þjóðhagsráðs í byrjun júní sagði Már að vaxtamunurinn á milli Íslands og annarra landa væri að „skapa hættu á fjármagnsinnstreymi á grundvelli svokallaðra vaxtamunarviðskipta, en slíkt innstreymi hefði truflað miðlum peningastefnunnar í gegnum vexti á seinni helmingi síðasta árs“. Már bætti þó við að nýtt fjárstreymistæki, sem Seðlabankinn kynnti til leiks í byrjun júnímánaðar, ætti að geta haft „áhrif á samsetningu fjármagnsflæðis til og frá landinu og þannig væri betur hægt að beita vöxtunum til að dempa eftirspurn ef á þyrfti að halda“.
Og í viðtalinu við Morgunblaðið í morgun segir Már að nýja tækið „svínvirki“. Það sé staðreynd að innstreymi erlends gjaldeyris inn á skuldabréfamarkaðinn hafi algjörlega stöðvast eftir að Seðlabankinn hóf að beita reglunni og vaxtamunaviðskiptin þar með líka. Því hafi bitið í peningastefnunni aukist.