Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra, IFATCA, lýsa yfir miklum áhyggjum af flugöryggi á Íslandi. Í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér í gær, um ástandið á Íslandi, kemur fram að mönnun flugumferðarstjóra í Leifsstöð sé ekki næg, reglum sé ekki fylgt og ISAVIA þurfi að bregðast hratt og skjótt við til að ganga ekki gegn alþjóðalögum. Undir tilkynninguna skrifar Tom Laursen, framkvæmdastjóri IFATCA í Evrópu. Flugumferðarstjórar hérlendis hafa staðið í miklum kjaradeilum undanfarin misseri, sem fól meðal annars í sér yfirvinnubann, sem gerði það að verkum að miklar raskanir urðu á flugumferð.
IFATCA segja að nýjustu skýrslur frá Íslandi um flugöryggi sýni að vegna manneklu séu flugumferðarstjórar skildir eftir einir í Leifsstöð í yfir átta klukkustundir í senn og það sýni fram á að ISAVIA hafi mistekist að tryggja viðunandi þjónustu- og öryggisviðmið. Það sé grafalvarlegt.
ISAVIA verði að bregðast við
Samtökin hvetja ISAVIA til að gera sér grein fyrir undirmönnun í stéttinni og bregðast skjótt við því. Þá ætti ISAVIA að þróa með sér langtímaáætlun sem tryggi að mönnun flugumferðarstjóra sé næg í ljósi sívaxandi flugumferðar í gegn um Leifsstöð. Einnig eigi að sjá til þess að þjálfun stéttarinnar sé viðunandi og aukin traffík megi ekki verða á kostnað hennar. Þar vísa samtökin í alþjóðalög um flugumferð.
Í maí sendu samtökin jafnframt frá sér yfirlýsingu þar sem lýst var yfir áhyggjum með yfirvinnubann flugumferðarstjóra.
Ógna öryggi áhafna og farþega
Í tilkynningunni í gær segir að til að fyllsta öryggis sé gætt og öllum reglum sé fullnægt hvað varðar flugumferð í heiminum þurfi aðilar allra landa heims að fylgja settum reglum, meðal annars hvað varðar mönnun flugumferðarstjóra.
Lýst er yfir áhyggjum að nýjustu vendingar innan ISAVIA og þeirra vandkvæði með mönnun geti ógnað öryggi áhafna og farþega í millilandaflugi til og frá Íslandi.
Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra eru með meira en 50 þúsund félaga í 133 löndum um allan heim. Samtökin huga að öryggi og áreiðanleika í flugumferð og eru einnig hagsmunasamtök fyrir flugumferðarstjóra.
Samið en hafnað
Samtök atvinnulífsins (SA) fyrir hönd ISAVIA og Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) undirrituðu kjarasamning í húsnæði ríkissáttasemjara á um miðja nótt þann 25. júní síðastliðinn. Flugumferðarstjórar höfnuðu samningnum, sem átti að gilda út árið 2018, í atkvæðagreiðslu. Alþingi setti lög á yfirvinnubann flugumferðarstjóra í júní og því var gerðardómur kallaður saman til að ákveða kaup og kjör, náist ekki að semja.