Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir að Theresa May, hinn nýi forsætisráðherra Bretlands, sé að koma mjög vel út í sínum störfum. Í viðtali við Fréttablaðið segist Lilja impóneruð yfir því hvernig tekið var á málunum eftir að niðurstöður Brexit-kosninganna lágu fyrir.
„Theresa May er að koma mjög vel út. Það var auðvitað ákveðin pólitísk upplausn og tómarúm í smá tíma en Bretland er stórveldi. Sjötta stærsta hagkerfi heimsins. Það kemur ekki á óvart að þeir taki málin föstum tökum. Það sem ég held að muni gerast núna er að þeir ætli að skilgreina sín samningsmarkmið áður en þeir fara í viðræður,“ segir Lilja í Fréttablaðinu.
Hún segir nauðsynlegt að umboð frá þjóðum sem vilja sækjast eftir aðild að sambandinu þurfa að vera mjög skýrt. Hún segir það hafa skort þegar Íslendingar fóru í sína vegferð með ESB og því hafi það endað eins og það gerði.
Hún segir stöðuna í Tyrklandi afar slæma og nauðsynlegt sé að fylgjast náið með þróun mála. Hvorki hún né nokkur annar geti spáð fyrir um áhrifin í framhaldinu.