Wikileaks birtu um tuttugu þúsund tölvupóstssamskipti innan flokksstjórnar Demókrataflokksins í Bandaríkjunum í gærkvöld. Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir flokkinn, sérstaklega þar sem póstarnir voru birtir á sama tíma og Hillary Clinton, forsetaefni Demókrataflokksins, tilkynnti varaforsetaefni sitt, Tim Kaine. Í póstunum er meðal annars rætt um Bernie Sanders, sem tapaði í forvali fyrir Clinton, og samskipti flokkstjórnarinnar við fjölmiðlamenn vestanhafs.
Póstar frá toppunum spanna eitt og hálft ár
Wikileaks birtu póstana með tengli á Twitter með möguleika á að leita innan gagnagrunnsins. Lekinn var kynntur sem „fyrsti hluti Hillary-lekans.“ Þar er meðal annars að finna yfir 10.000 pósta tengdum yfirmanni samskiptasviðs Demókrataflokksins, Luis Miranda, tæplega 4.000 pósta til og frá fjármálastjóranum Jordon Kaplan og öðrum yfirmanni fjármála, Scott Comer. Tölvupóstarnir ná yfir tímabilið janúar 2015 til 25. maí 2016. Washington Post greinir frá því að póstarnir koma frá rússneskum tölvuhökkurum sem náðu að brjótast inn í tölvukerfi Demókrataflokksins.
„Trúir hann á guð?“
Í einum póstinum frá 5. maí síðastliðnum sést hvar samskiptastjórinn, Luis Miranda, er að velta fyrir sér trúarafstöðu Bernie Sanders.
„Það skiptir kannski ekki máli, en við ættum kannski að láta einhvern í Kentucky og Vestur Virginíu spyrja út í trú hans,“ segir Miranda, til netfangsins mashall@dnc.org. Í svarinu segir: „Trúir hann á guð. Hann hefur skautað fram hjá því að hann er af gyðingaættum. Ég held að ég hafi lesið að hann sé trúleysingi. Þetta gæti skipt máli hjá mínu fólki. Í baptistakirkjunni minni mundi það skipta miklu máli hvort hann sé Gyðingur eða trúleysingi.“
Fríðindi fyrir peningafólk
Fleiri samskipti af þessum toga er að finna í lekanum og sýna svart á hvítu hversu hörð kosningabaráttan á milli Sanders og Clinton varð.
Í pósti frá Erik Stowe, fjármálastjóra í Norður Kaliforniu fyrir Tammy Paster fjáröflunarráðgjafa útlistar það fríðindi sem þeir sem veita styrki til flokksins eiga að fá fyrir landsþing Demókrataflokksins sem verður í Fíladelfíu í næstu viku. Þeir sem gáfu mest fá svítu á lúxushóteli í Fíladelfíu, frímiða á viðburði á þinginu og sex miða á „VIP-veislu“.
Stuðningsmenn Donalds Trump hafa eðlilega notfært sér lekann og hvetja nú Demókrata sem vildu fá Sanders sem fulltrúa sinn, að kjósa Trump í staðinn í ljósi þess hversu hliðhollur Demókrataflokkurinn virðist hafa verið Clinton.