„Ráðherra ferðamála virðist ekki nenna að reka af sér slyðruorðið og tryggja að sveitarfélög fái hlutdeild í tekjum af ferðafólki — því það snúist einungis um milljarð á ári!“ skrifar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur á Facebook-síðu sína í dag. Dagur krækir í frétt af viðtali við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í þættinum Þjóðbraut á Hringbraut þar sem hún segist ekki vilja fara frekari tekjuleiðir stjórnvalda til að styðja við ferðaþjónustuna.
Ragnheiður Elín sagði í viðtalinu að í samhenginu væri milljarður „baunir“ við þær tekjur sem fást af ferðafólki. Dagur spyr í færslu sinni hvort þarna sé komin ástæðan fyrir „algeru aðgerða- og áhugaleysi ráðherra við að koma til móts við þá eðlilegu kröfu að gistináttagjald renni til sveitarfélaga“.
Mikið hefur verið rætt um aðkomu ríkisins að uppbygginu innviða í ferðaþjónustu, hvort sem það tengist salernum eða annarri aðstöðu fyrir ferðamenn á vinsælum ferðamannastöðum. Ragnheiður Elín segir virðisaukaskattskerfið duga til að tryggja ríkissjóði tekjur af ferðaþjónustu. Tekjur af gistináttagjaldi eru 250 milljónir króna á ári og renna þær beint í ríkissjóð en ekki til sveitarfélaga. Ef hundrað króna gistináttagjald yrði fjórfaldað yrðu tekjurnar milljarður. „Milljarður er líka baunir í samhengi við allar þær tekjur sem fást af ferðafólki,“ er haft eftir Ragnheiði Elínu í frétt Hringbrautar.
Dagur segir að fyrir milljarð á ári mætti gera „gagnskör í uppbyggingu innviða, einsog salerna, umhirðu og viðhaldi, einsog hreinsun og malbiksframkvæmdir, þar sem þörfin er brýn víða um land vegna aukins álags og straums ferðamanna“.
„Ráðherra gerir illt verra og hælist um og segir að allar kistur séu fullar af gulli hjá ríkinu. Það er í það minnsta ljóst að Ragnheiður Elín ætlar að klára ráðherratíð sína án þess að gera neitt í þessu,“ skrifar Dagur. „Afrakstur heils kjörtímabils: Innviðina vantar víða, aðgerðarleysið er algert og stuðningur við sveitarfélög í þessum mikilvægu verkefnum enginn.“
Borgarráð hefur skorað á Stjórnstöð ferðamála að beita sér fyrir að hludeild af tekjum af virðisaukaskatti, gistináttagjaldi og öðrum sköttum af ferðafólki renni til sveitarfélaga. „Augljóst er að sveitarfélög um allt land verða fyrir margvíslegum auknum kostnaði vegna umhirðu og aðstöðusköpunar, uppbyggingar innviða og slits á vegum,“ segir í ályktuninni sem afgreidd var úr borgarstjórn 5. apríl síðastliðinn.
„Málflutningur ráðherra dregur einvörðungu fram hversu ósanngjarnt er að sveitarfélög beri fyrst og fremst kostnað en njóti í miklu minna mæli ábata af aukinni ferðaþjónustu en ríkið,“ segir einnig í ályktuninni. Reykjavík er fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.