Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir það „beinlínis hallærislegt af borgarstjóra í pólitískum popúlisma að reyna að stilla okkur upp sem andstæðingum“ í umræðunni um hvernig tekjur af komu ferðamanna til Íslands renna til sveitarfélaga. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hlekkjaði í frétt af viðtal við Ragnheiði Elínu á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem hann gagnrýndi „aðgerða- og áhugaleysi“ ráðherra ferðamála í þessum efnum.
Ragnheiður Elín svaraði Degi á sama vettvangi — Facebook-síðu sinni — og segist eiga til með að svara „mjög önugum og ómálefnalegum borgarstjóra“ sem henni „skilst hafa verið að hnýta í [sig] á facebook síðu sinni fyrr í morgun“.
Dagur krækti í frétt af viðtali við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í þættinum Þjóðbraut á Hringbraut þar sem hún segist ekki vilja fara frekari tekjuleiðir stjórnvalda til að styðja við ferðaþjónustuna. Kjarninn fjallaði um málið í hádeginu.
Ragnheiður Elín sagði í viðtalinu að í samhenginu væri milljarður „baunir“ við þær tekjur sem fást af ferðafólki. Dagur spyr í færslu sinni hvort þarna sé komin ástæðan fyrir „algeru aðgerða- og áhugaleysi ráðherra við að koma til móts við þá eðlilegu kröfu að gistináttagjald renni til sveitarfélaga“.
Ragnheiður Elín segir í svari sínu að það væri vitað að hún og borgarstjórinn væru ósammála um að gistináttagjaldið væri sá gjaldstofn sem færa ætti yfir til sveitarfélaganna til þess að tryggja þeim hlutdeild í tekjum af ferðamönnum. „Það er vegna þess í fyrsta lagi að það myndi skila sér með mjög ójöfnum hætti til sveitarfélaganna um landið og hvergi í samhengi við þann kostnað sem sveitarfélögin - sérstaklega þau fámennustu úti á landi - hafa af þjónustu og innviðauppbyggingu vegna ferðaþjónustunnar,“ skrifar Ragnheiður Elín. „Í öðru lagi gefur gistináttagjaldið ekkert sérstaklega vel af sér, ef svo mætti til orða komast, sérstaklega þegar haft er í huga hversu mikið ómak er af innheimtu þess, fjölda innheimtuaðila, margar undanþágur og litlar heimtur. Þetta ræddi ég allt í viðtalinu sem Dagur vísar til.“
Hún segir þau hins vegar sammála um að finna þurfi leiðir til að auka hlutdeild sveitarfélaganna í tekjum af ferðaþjónustunn og bendir á að þetta sé hluti af stefnumörkun ríkissins. Það sé eitt af markmiðum Vegvísis í ferðaþjónustu og að vinna við þetta sé hafin á vettvangi stjórnstöðvar ferðamála. „Þar er að auki verið að skoða hvaða tekjur sveitarfélögin hafa nú þegar af ferðaþjónustunni,“ skrifar hún og heldur áfram:
„Við fyrstu sýn virðist manni þó að stærsta sveitarfélagið í landinu ætti að vera í langbestu stöðunni - fasteignagjöld af hótelum sem rísa víða um borgina, útsvar af launum alls þess fjölda starfa sem orðið hafa til í ferðaþjónustunni o.s.frv. - allt hlýtur þetta að telja og vera að minnsta kosti eitthvað upp í kostnaðinn við þau "brýnu" verkefni sem borgin er að ráðast í um þessar mundir, eins og þrengingu Grensásvegar.“
Mikið hefur verið rætt um aðkomu ríkisins að uppbygginu innviða í ferðaþjónustu, hvort sem það tengist salernum eða annarri aðstöðu fyrir ferðamenn á vinsælum ferðamannastöðum. Ragnheiður Elín segir virðisaukaskattskerfið duga til að tryggja ríkissjóði tekjur af ferðaþjónustu. Tekjur af gistináttagjaldi eru 250 milljónir króna á ári og renna þær beint í ríkissjóð en ekki til sveitarfélaga. Ef hundrað króna gistináttagjald yrði fjórfaldað yrðu tekjurnar milljarður. „Milljarður er líka baunir í samhengi við allar þær tekjur sem fást af ferðafólki,“ er haft eftir Ragnheiði Elínu í frétt Hringbrautar.
„Ráðherra gerir illt verra og hælist um og segir að allar kistur séu fullar af gulli hjá ríkinu. Það er í það minnsta ljóst að Ragnheiður Elín ætlar að klára ráðherratíð sína án þess að gera neitt í þessu,“ skrifar Dagur í færslu sinni í morgun. „Afrakstur heils kjörtímabils: Innviðina vantar víða, aðgerðarleysið er algert og stuðningur við sveitarfélög í þessum mikilvægu verkefnum enginn.“
Ragnheiður Elín leggur til að Dagur hlusti á viðtalið sem hann vísar til og hvetur hann til að vinna með ríkinu þar sem unnið sé „þvert á stjórnsýsluna, með sveitarfélögum og greininni sjálfri“.
Borgarráð hefur skorað á Stjórnstöð ferðamála að beita sér fyrir að hludeild af tekjum af virðisaukaskatti, gistináttagjaldi og öðrum sköttum af ferðafólki renni til sveitarfélaga. „Augljóst er að sveitarfélög um allt land verða fyrir margvíslegum auknum kostnaði vegna umhirðu og aðstöðusköpunar, uppbyggingar innviða og slits á vegum,“ segir í ályktuninni sem afgreidd var úr borgarstjórn 5. apríl síðastliðinn.
„Málflutningur ráðherra dregur einvörðungu fram hversu ósanngjarnt er að sveitarfélög beri fyrst og fremst kostnað en njóti í miklu minna mæli ábata af aukinni ferðaþjónustu en ríkið,“ segir einnig í ályktuninni. Reykjavík er fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Sveitarfélög hafa eins og er aðeins óbeinar tekjur af straumi ferðamanna. Engin hlutdeild af virðisaukaskatti, gistináttagjaldi eða öðrum tekjustofnum sem fengnir eru af ferðamönnum renna til sveitarfélaga.