Að minnsta kosti tveir eru látnir og hátt í tuttugu særðir eftir skotárás á næturklúbbi í Fort Myers í Flórída í Bandaríkjunum í nótt. Verið var að halda viðburð fyrir unglinga og voru flestir gestanna á aldrinum 12 til 17 ára. Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að þrír séu í haldi lögreglu í tengslum við málið. Einhverjir eru í lífhættu.
Árásin var gerð um klukkan eitt um nótt að staðartíma, eða um fimm í morgun að íslenskum tíma. AP fréttastofan greinir frá því að um klukkan 10 í morgun að íslenskum tíma hafi svæðið við klúbbinn verið úrskurðað öruggt, en gatan verði lokuð á meðan rannsókn stendur yfir.
Þetta er í annað sinn á rúmum mánuði sem fjöldamorð er framið á næturklúbbi í Flórída, en í júní voru 50 manns myrtir í skotárás á skemmtistað fyrir hinsegin fólk í Orlando. Það var mannskæðasta skotárás í sögu Bandaríkjanna. Árásin var rannsökuð sem hryðjuverk og árásarmaðurinn, Omar Saddiqui Mateen, 29 ára gamall Flórídabúi, var skotinn til bana í áhlaupi lögreglu.
Hér er hægt að fylgjast með Twitterfærslum um málið.
Uppfært klukkan 15:20
AP fréttastofan greinir frá því að fjórir séu á sjúkrahúsi eftir árásina, en tveir voru skotnir til bana. Talið er að 17 manns hafi særst í árásinni. Fórnarlömbin eru á aldrinum 12 til 27 ára. Haft er eftir forsvarsmönnum Club Blu, þar sem árásin var framin, að skothríðin hafi byrjað á svipuðum tíma og foreldrar komu að sækja börn sín.