Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannesson, forsvarsmaður Viðreisnar, segja flokka sína ekki getað útilokað samstarf við neinn eftir komandi kosningar. Samstarf byggi á málefnum og hvort fólk geti komið sér saman um slíkt.
Birgitta, Katrín og Oddný hafna allar Sjálfstæðisflokknum
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingar, sögðust í morgun við Kjarnann útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar. Katrín og Birgitta sögðu flokkinn hafa stimplað sig út úr möguleika á samstarfi þegar formaðurinn tilkynnti að hann mundi berjast gegn kerfisbreytingum.
Ekki ánægður með ríkisstjórnina
Óttarr undirstrikar þó að Björt framtíð hafi ekki verið mjög hrifin af núverandi ríkisstjórn.
„Við höfum verið mjög gagnrýnin á margt sem hún hefur gert og stefnu hennar,“ segir hann í samtali við Kjarnann. „Að óbreyttu finnst manni samstarf við flokkana ólíklegt en við viljum ekki fyrirfram útiloka slíkt við neinn þar sem þetta byggir á málefnum. Við höfum unnið með flestum öðrum flokkum í sveitarstjórnum og það getur alveg gengið upp.“
Viðreisn vill róttækar kerfisbreytingar
Benedikt segir við Kjarnann að flokksmenn hafi ekki rætt þessi mál neitt sérstaklega, enda sé flokkurinn nýstofnaður.
„Við nálgumst þetta út frá málefnunum. Okkar megináherslur eru markaðsleið í sjávarútvegi, nútímaleg landbúnaðarstefna, kosningar um framhald viðræðna við Evrópusambandið og að styrkja hag þeirra sem minnst fá út úr almannatryggingakerfinu þannig að það verði dregið úr skerðingu,“ segir hann. Ef flokkar fallist á þeirra tillögur sé ekki hægt að útiloka neitt. „En auðvitað tók ég eftir orðum formanns Sjálfstæðisflokksins um að meginstefnumál flokksins væru að koma í veg fyrir kerfisbreytingar. Okkar meginmál eru að koma í gegn róttækum kerfisbreytingum. Við erum ekki að hugsa um persónur eða flokka í þessu, en svo geta menn dregið ályktanir út frá því hverjir eru með líkust málefni.“
Sigmundur gruggar vatnið enn meira
Varðandi skrif Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, í dag og í gær um að það væri glapræði að kjósa í haust segir Óttar þau afar undarleg.
„Stjórnarflokkarnir gerðu samkomulag við almenning í vor að flýta kosningum. Og náðu þannig að sætta fólk við þá kröfu að slíta og kjósa strax. Þetta er ansi mikil kúvending,“ segir hann. „Það er mjög sérstakt hvernig stjórnarflokkunum hefur tekist að halda því fram að það eigi að kjósa í haust en geta ekki staðfest það með því að ákveða kjördag. Þetta er mjög óvenjulegt og svona yfirlýsing gerir ekkert annað en að grugga vatnið enn meira.“
Feigðarflan að kjósa ekki í haust
Benedikt gefur ekki mikið fyrir skrif Sigmundar Davíðs.
„Þetta er maðurinn sem vildi leysa upp þingið í vor, einn og sér án samráðs við nokkurn mann, sem sýnir hversu alvarlega maður eigi að taka skrif hans,“ segir hann. „Ég held að það væri mikið feigðarflan fyrir þessa flokka að svíkja það loforð ofan á loforðið um þjoðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB. Það er nóg að vera með eitt svona svikið loforð á bakinu, hvað þá tvö.“