Atvinnuleysi á Íslandi í júnímánuði hefur ekki mælst jafn lágt síðastliðin átta ár eða síðan í júní árið 2008. Atvinnuleysið var 2,3 prósent, samkvæmt frétt á vef Hagstofunnar og atvinnuþátttakan 85,3 prósent sem er örlítið minna en í sama mánuði í fyrra.
Atvinnuleysi mælist alla jafna lægst í júní, júlí og ágúst þegar atvinnurekendur ráða fólk í sumarafleysingar vegna sumarfría. Atvinnuleysið er hins vegar yfirleitt mest í apríl og maí vegna nýrrar eftirspurnar ungs fólks á aldrinum 16 til 24 ára eftir bæði sumarstörfum og framtíðarstörfum.
Sé leiðrétt fyrir þessum árstíðabundnu sveiflum þá mælist atvinnuleysið 2,6 prósent, örlítið meira en það var í maí þegar það mældist 2,2 prósent. Sé leitni gagnanna síðustu ár skoðuð sést bersýnilega að atvinnuleysi fer minnkandi á Íslandi. Sé aðeins horft til síðustu sex mánaða sést að atvinnuleysi hefur minnkað um 0,4 prósentustig. Sé hins vegar horft til alls síðasta árs, eða síðustu 12 mánaða, sést að atvinnuleysið hefur minnkað um 1,2 prósentustig.
Í sundurliðun talna Hagstofunnar sést að fleiri konur eru atvinnulausar en karlar. Alls er atvinnuleysið 2,3 prósent. Meðal kvenna er það 2,5 prósent en 2,1 prósent meðal karla. Mun fleiri konur eru utan vinnumarkaðar en karlar. Þeir sem eru utan vinnumarkaðar eru um það bil 34.800 manns, eða 14,7 prósent af áætluðum fjölda fólks á aldrinum 16 til 74 ára. Tveir þriðju þess hóps eru konur.
Vinnumarkaður 16 til 74 ára í júní 2016
Mæling Hagstofunnar á atvinnuleysi er gert með hefðbundinni könnun. Fyrir mælingarnar í júní var haft samband við 1.517 einstaklinga á aldrinum 16 til 74 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Þessi hópur minnkaði í 1.481 þegar frá voru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis. Enn fækkaði í hópnum þegar aðeins nothæf svör voru talin til. Nothæf svör fengust frá 1.049 einstaklingum og svörunarhlutfallið því 70,8 prósent. Niðurstöðurnar eru vegnar eftir kyni og aldri.