Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að einungis verði kosið í haust ef næst að klára nauðsynleg mál fyrir þann tíma. Í viðtali við RÚV segir Sigurður Ingi að allir í stjórnarflokkunum séu sammála um að að leggja áherslu á að ljúka málefnum svo hægt sé að kjósa. Góður samhljómur sé á milli hans og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins.
Kjördagur þurfi að liggja fyrir með talsverðum fyrirvara og Sigurður Ingi segist vænta þess mjög fljótlega eftir að þing kemur saman verði ljóst hvort þingið sé ekki á áætlun.
„Það gekk mjög vel í vor. Þingið starfaði af mikilli skilvirkni og dugnaði,“ segir forsætisráðherra við RÚV. „Ég hef sömu væntingar til þingsins núna og í vor, að það muni ganga mjög vel.“
Þó nokkur mál séu þó eftir, sem og ný mál sem ríkisstjórnin hefur boðað og muni leggja mikla áherslu á að klára. Hann nefnir þar afnám hafta á einstaklinga og fyrirtæki, samspil séreignasparnaðar og verðtryggðra og óverðtryggðra lána, og húsnæðismál. Að auki liggi fyrir þrjár tillögur að mikilvægum breytingum á stjórnarskrá.