Það verður kosið til Alþingis upp úr miðjum október, kannski fyrstu vikur í nóvember. Þetta segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sagði Vilhjálmur að ekkert hefði verið rætt við sig af flokksforystunni um annað en að kjósa í haust. Sjálfstæðismenn hafi til að mynda lagt upp með prófkjör í öllum kjördæmum fyrir þann tíma.
Sigmundur missti traust Sjálfstæðisflokksins
Vilhjálmur segist vissulega ekki hafa rætt við alla Sjálfstæðismenn og auðvitað séu misjafnar skoðanir meðal fólks um hvort kjósa eigi í haust eða ekki. En samkvæmt því sem lagt var upp með í apríl, þegar upp kom fordæmalaus staða í íslenskum stjórnmálum og forsætisráðherra missti traust þjóðar og samstarfsflokks, var samið um kosningar í haust. Til séu viðtöl við bæði Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, til að staðfesta það.
Hissa á Framsókn
Um þau mál sem séu eftir segir Vilhjálmur þau flest einungis hefðbundin þingmál og óþarfi sé að klára þau ekki. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur undanfarna daga talað fyrir því að halda ekki kosningar í haust, þar sem svo mikilvæg mál séu eftir á þinginu sem þurfi að klára áður en kosið verður. Það geti tekið tíma sinn.
Vilhjálmur sagðist hissa á ýmsu sem hafi komið frá Framsóknarfmönnum í samstarfi flokkanna.
„Ég hef aldrei séð þennan málalista Framsóknar og Sigmundur Davíð hefur ekki fjallað um hann nema að þessu takmarkaða leiti,“ sagði hann.
Skrautlegt þegar Birgitta verður forseti Alþingis
Spurður hvort hann geti hugsað sér samstarf við Pírata, sem eru að mælast stærstir í skoðanakönnunum þessa dagana, segir Vilhjálmur ekki viljað útiloka samstarf við neinn. Hann vísar þar í ummæli forystufólks Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna í Kjarnanum í gær þar sem samstarf við Sjálfstæðisflokkinn var útilokað. Hann ræddi um Pírata og sagði flokkurinn hafi ekki látið það mikið í ljós á síðustu þingum að þeir vildu komast í ríkisstjórn, meðal annars með því að sitja mikið hjá í atkvæðagreiðslu mála. Um Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformann Pírata, sagði Vilhjálmur að lokum:
„Það verður gaman þegar hún verður forseti Alþingis. Það verður skrautlegt.“