Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar að gefa kost á sér til að leiða listann í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir næstu Alþingiskosningar. Þorsteinn sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann segir að hann hyggist, á tvöföldu kjördæmisþingi sem haldið verði í ágúst í Reykjavík, gefa kost á sér í fyrsta sæti.
„Ákvörðun mín er tekin vegna hvatningar sem ég hef fengið frá Framsóknarmönnum í Reykjavík á framboði mínu þar. Einnig hefur brotthvarf tveggja reyndra þingmanna úr kjördæminu áhrif á ákvörðum mína en brýnt er að fylla það skarð sem þeir láta eftir. Ég mun senda kjörstjórn flokksins í Reykjavík tilkynningu um framboð mitt innan nokkurra daga,“ segir Þorsteinn í tilkynningunni.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, eru þingmenn Framsóknarflokks í Reykjavík norður og þau ætla bæði að hætta fyrir næstu kosningar. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sem er í Reykjavík suður, ætlar líka að hætta.