Tónlistarmennirnir Ólafur Arnalds og Sölvi Blöndal fara fyrir hópi tónlistarfólks og fjárfesta sem standa að stofnun nýs tónlistarútgáfufyrirtækis. Með nýja útgáfufyrirtækinu á að nútímavæða íslenska tónlistarútgáfu með aukinni stafrænni útgáfu og auka aðgengi að eldra íslensku efni á veraldarvefnum. Stefnt er á 10 nýjar útgáfur á næsta ári.
Í samtali við Kjarnann segir Ólafur að nýja fyrirtækinu, sem enn hefur ekki fengið nafn, verði stjórnað af tónlistarmönnum og að að því komi aðeins fólk sem sé tónlistarfólk eða hafi ástríðu fyrir tónlist. Bæði Ólafur og Sölvi sitja í stjórn fyrirtækisins en meðal annarra sem koma að stofnun þess eru Reynir Harðarson, framkvæmdastjóri CCP, Sigurjón Sighvatsson kvikmyndagerðarmaður og fjárfestarnir Henrik Biering og Jón Diðrik Jónsson, sem er meirihlutaeigandi í Senu.
Ólafur segir að umræða um stofnun nýs útgáfufyrirtækis á Íslandi hafi staðið lengi en hjólin hafi ekki farið að snúast fyrr en í byrjun þessa árs. „Þetta er góð hugmynd fyrir okkur sem stöndum að þessu og tónlistarfólkið,“ segir Ólafur. Hugmyndin sé að nútímavæða íslenska tónlistarútgáfu; færa hana enn frekar í stafrænt form.
Tónlistarstreymisveitur á borð við Spotify og iTunes hafa undanfarin misseri rutt sér til rúms sem stærsti „seljandi“ tónlistar í heiminum. Tug þúsund Íslendingar eru með áskrift að Spotify, þar sem hægt er að sækja tónlistina löglega með því að greiða mánaðarlegt gjald. Ólafur segir að það sé engin ástæða fyrir því að íslenskir tónlistarmenn eigi ekki að fá borgað fyrir stafræna hlustun líka.
Ónefnda útgáfufyrirtækið hefur, til þess að stuðla að markmiði sínu, eignast allan tónlistarrekstur Senu og um leið alla safnskrá og eldri útgáfur fyrirtæksins. Þar eru allt að sjötíu ára gamlar útgáfur sem Ólafur segir að gaman verði að dreifa löglega á vefnum.
„Markmiðið er að taka catalogue-inn og gera hann meira áberandi stafræna heiminum og gera íslenska tónlist aðgengilegri. Það hefur enginn farið í þessa herferð að búa til stafrænt íslenskt tónlistarumhverfi,“ segir Ólafur. Með því að komast yfir útgefið efni í eigu Senu segir Ólafur að hægt sé að reka útgáfufyrirtækið á nútímalegri hátt; Þeim hafi fundist að það þyrfti kannski að koma nýtt blóð í reksturinn til að nútímavæða útgáfuna.
Þó mega íslenskir tónlistarmenn ekki gefast upp á geisladiskunum, og sérstaklega ekki vinylplötunum. Nýja útgáfufyrirtækið ætlar einnig að gefa út efnislegar plötur, ef svo má að orði komast. Ólafur bendir hins vegar á að markaðurinn fyrir slíka útgáfu sé að minnka og að hann muni minnka enn frekar. Útgáfa á vinyl hefur þó fengið nýja náð meðal tónlistarunnenda og hefur það aukist undanfarin ár að listamenn gefi tónlist sína út á vinyl. Ólafur segir einnig hugsanlegt að nýja útgáfufyrirtækið ráðist í endurútgáfu á eldra íslensku efni, jafnvel því sem aldrei hefur komið út á vinyl.
Fyrirtækið og hugmyndin verður kynnt fyrir tónlistarfólki og blaðamönnum á Húrra í dag klukkan 13.
Ólafur Arnalds hefur getið sér gott orð sem solo-listamaður. Hann hefur gefið út þrjár breiðskífur síðan 2007 auk þess að hann hefur átt í samstarfi við hina ýmsu listamenn. Þekktasta samstarfið er hugsanlega tilraunatekknóbandið Kiasmos sem Ólafur rekur með Janus Rasmussen.
Sölvi Blöndal er oft kenndur við Quarashi enda var hann einn stofnenda hljómsveitarinnar árið 1996 og er enn forsprakki sveitarinnar í endurkomunni sem hófst í ár. Ný plata er í smíðum hjá Quarashi og nú þegar eru þeir búnir að gefa út nýtt lag: