Félög sem eru sögð eiga að fjármagna byggingu einkasjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ eru ekki skráð með starfsleyfi hjá hollenska fjármálaeftirlitinu eða seðlabankanum þar í landi. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
Henri Middeldorp, stjórnarformaður MCPB, sem hyggst standa að framkvæmdunum, hefur sagt að þær verði fjármagnaðar með láni frá félaginu Burbanks Capital, sem sé dótturfélag Burbanks Holding. Hann eigi meirihlutann í félaginu. Hann hefur sagt að 50 milljarðar króna í verkefnið komi frá fjárfestum utan þessara félaga, en féð sé í eignastýringu hjá Burbanks. Nú er komið í ljós að félagið hefur ekki leyfi til eignastýringar.
Fréttablaðið ræðir við upplýsingafulltrúa hjá hollenska fjármálaeftirlitinu, sem segir að allir sem veiti fjármálaþjónustu í Hollandi þurfi starfsleyfi frá seðlabankanum eða fjármálaeftirlitinu.
Middeldorp segir hins vegar ekki ekki þurfi starfsleyfi. „Þú þarft leyfi frá Seðlabankanum þegar þú sækist eftir fé opinberlega en við erum ekki að því,“ er haft eftir honum í Fréttablaðinu. Burbanks Capital hefur þó auglýst eftir fjárfestum á Facebook, sem hann segir annað mál.
Kjarninn greindi hins vegar frá því í vikunni að sótt verði um skattaívilnanir vegna verkefnisins hjá stjórnvöldum. Engar framkvæmdir verði hafnar við byggingu einkasjúkrahússins fyrr en búið er að gera það. Þetta segir Gunnar Ármannsson, stjórnarmaður í félaginu MCPB.
Þá verða nöfn fjárfesta heldur ekki gerð opinber fyrr en umsagnirnar verða lagðar fram. Gögn um nöfn fjárfesta og mat frá viðskiptabanka verða lögð fyrir stjórnvöld og hafa forsvarsmenn sjúkrahússins frest til þess fram til 1. desember 2017.