Herskólum verður lokað og herinn verður settur beint undir varnarmálaráðherra Tyrklands. Þetta tilkynnti forseti landsins, Recep Tayyip Erdogan, í gær.
Þá hefur 1.700 starfsmönnum tyrkneska hersins verið vikið úr honum í þessari viku. Fikri Isik, varnarmálaráðherra landsins, segir að hreinsunum innan hersins sé ekki enn lokið eftir misheppnaða valdaránstilraun um miðjan júlí. Meðal þeirra sem hafa verið látnir fara frá hernum frá valdaránstilrauninni eru 40% allra aðmírála og hershöfðingja.
„Herinn okkar verður miklu sterkari með þessum nýju tilskipunum. Yfirmenn hersins munu heyra undir varnarmálaráðherrann,“ sagði Erdogan, forseti landsins, í sjónvarpsviðtali. „Herskólum verður lokað, við munum koma á varnarmálaháskóla á vegum ríkisins.“ Þá vill Erdogan að fleiri stofnanir, eins og leyniþjónustan, verði látin heyra beint undir hann. Sömu sögu er að segja af æðsta yfirmanni hersins. Til þess þyrfti að breyta stjórnarskrá landsins. Aukinn meirihluti á þinginu verður að samþykkja stjórnarskrárbreytingar, en ekki er talið líklegt að mikil andstaða verði við það eins og aðstæður eru nú í Tyrklandi.
Erdogan hefur einnig greint frá því að yfir tíu þúsund manns hafi verið handteknir eftir valdaránstilraunina um miðjan júlí.