Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, mætti ekki í Alþingishúsið í dag þegar fram fór innsetning nýs forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar. Hann sagði í skriflegu svari til Ríkisútvarpsins að hann hafi verið á ferðalagi og ekki komist.
Sigmundur Davíð var boðinn bæði sem fyrrverandi forsætisráðherra og sem formaður stjórnmálaflokks. Allir aðrir formenn flokka mættu við innsetningarathöfnina, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar. Þá var Birgitta Jónsdóttir frá Pírötum viðstödd, en Píratar hafa ekki formann.
Einu fyrrverandi forsætisráðherrarnir sem mættu á athöfnina voru þau Jóhanna Sigurðardóttir og Þorsteinn Pálsson. Davíð Oddsson mætti ekki, og ekki heldur Geir H. Haarde, en hann er búsettur erlendis. Davíð var sem kunnugt er keppinautur Guðna Th. um forsetaembættið, en hann hlaut tæplega 14% atkvæða í embættið í kosningunum þann 25. júní síðastliðinn.