Magnús Orri Schram, sem bauð sig fram til formanns Samfylkingarinnar í vor, ætlar ekki að bjóða sig fram til þings í kosningunum í haust. Frá þessu greindi hann á Facebook-síðu sinni í morgun.
Hann sagðist hafa boðið sig fram til formanns þar sem hann hafi lagt áherslu á viðamiklar breytingar í starfi flokksins, á vinnubrögðum og í forystusveit. Hann hafi talið það nauðsynlegt til að endurnýja traust til hreyfingar jafnaðarmanna. Hann hafi hins vegar lotið í lægra haldi fyrir Oddnýju G. Harðardóttur. „Ég tel að Oddný eigi að hafa fullt umboð til að vinna samkvæmt þeim áherslum sem hún lagði í sinni kosningabaráttu og vil óska henni alls hins besta.“
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sem einnig bauð sig fram til formanns flokksins í vor, hefur gefið það út að hann hyggist bjóða sig fram til þings á ný.