Orkustofnun (OS) gagnrýnir aðferðir verkefnisstjórnar um þriðja áfanga Rammaáætlunar harðlega í nýrri skýrslu. Stofnunin segir vinnu verkefnisstjórnar ábótavant og vill sjá mun fleiri virkjanakosti setta í nýtingu heldur en lagt er til í skýrsludrögum um þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlun stjórnvalda. Aðferðir verkefnisstjórnar séu á köflum ekki í samræmi við lög, greiningarvinna sé ófullnægjandi og utan skynsemismarka, mat sé byggt á of þröngu sjónarhorni, skortur sé á samræmi í einkunnagjöf og flokkun handahófskennd og órökstudd.
Setji ráðuneyti og Alþingi í erfiða stöðu
Í skýrslu OS segir að skýrsludrög verkefnisstjórnar séu ófullnægjandi og „setji ráðuneyti og Alþingi í erfiða stöðu við framhald verksins.“ Þá segir enn fremur: „Greiningarvinna er ófullnægjandi, matið byggir á of þröngu sjónarhorni, skortur er á samræmi í einkunnagjöf milli áfanga og niðurstöður flokkunar eru ekki nægilega rökstuddar.“ Fréttablaðið greinir frá skýrslunni í dag.
Verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar skilaði skýrsludrögum í maí síðastliðnum. OS sendi erindi ásamt fylgiskjali sem inniheldur gagnrýni stofnunarinnar til verkefnisstjórnar, þar sem verkefnisstjórn bað um umsagnir vegna skýrsludraganna.
Gætt óhóflegrar varfærni í flokkun
OS kemst að þeirri niðurstöðu að forsendur flokkunar virkjanakosta í vernd, bið eða nýtingu, byggi á veikum grunni og lýsi þröngri sýn verndunar. Þá er það mat Orkustofnunar að vinna verkefnisstjórnar uppfylli ekki markmið laga um vernd- og orkunýtingaráætlun nema að litlu leyti.
„Gætt er óhóflega mikillar varfærni við flokkun virkjunarkosta í nýtingarflokk, virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk án þess að forsendur um skort á gögnum séu til staðar og í mörgum tilvikum eru atriði sem eðlilega væru tekin fyrir á stigi umhverfismats framkvæmda tilgreind sem ástæða fyrir því að virkjanir flokkast ekki í nýtingarflokk,“ segir í skýrslu OS. „Forsendur fyrir einkunnagjöf þeirra tveggja faghópa sem flokkun verkefnisstjórnar byggir á eru ekki fyrir hendi og margvíslega grunnvinnu vantar til þess að hægt sé að bæta úr annmörkum þessara draga að lokaskýrslu fyrir endanlega útgáfu skýrslunnar.“
Segja mikilvæg atriði vanta
Þá gagnrýnir OS verkefnisstjórnina fyrir að tiltaka ekki í skýrsludrögunum ákveðin atriði sem skipti máli í flokkun virkjanakosta. Þar er nefnt efnahagslegt mikilvægi orkuframleiðslunnar fyrir hagkerfið, Raforkuspá 2015 til 2050, umfjöllun um samfélags og efnahagsleg áhrif í eldri skýrslum og verkefnum, umhverfismál, loftlagsmál og endurnýjanlega orka og kerfisáhættu og þjóðaröryggi raforkuvinnslunnar.
OS fer einnig yfir þá virkjanakosti sem verkefnisstjórn flokkar niður í vernd, bið eða nýtingu.
„Það er forvitnilegt að bera saman röksemdir fyrir því að virkjunarkostum sé raðað í nýtingu, vernd eða bið. Við þá skoðun kemur í ljós að sambærileg rök geta orðið til þess að virkjunarkostir lendi í hverjum sem er af þessum flokkum,“ segir í skýrslu OS.
Vilja færa úr bið í nýtingarflokk
OS nefnir þar kosti sem eigi að setja í nýtingarflokk, sem er á skjön við það sem verkefnisstjórn segir: Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun og Trölladyngja. Varðandi Hverahlíð II, sem verkefnisstjórn telur að setja eigi í nýtingarflokk, tiltekur OS sérstaklega að þar hafi verkefnisstjórnin komist að skynsamlegri niðurstöðu.
Í skýrslu sinni segist OS vonast til að draga megi lærdóm af þeim ábendingum sem komi frá stofnuninni svo „næsta áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar verði tekið á öllum þeim þáttum sem markmið laganna ná yfir.“