Ásmundur Friðriksson alþingismaður býður sig fram í fyrsta til annað sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi í prófkjörinu sem fer fram 10. september næstkomandi. Hann tilkynnti þetta í dag.
Fyrir eru Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður í fyrsta og öðru sæti. Þær ætla báðar að sækjast eftir endurkjöri og því fer Ásmundur hálfpartinn gegn þeim báðum með því að gefa kost á sér í fyrsta og annað sætið.
Ásmundur greindi frá því fyrir nokkrum vikum að hann hefði fengið margar áskoranir um að bjóða sig fram til forystu í kjördæminu, en einnig hafði verið skorað á Elliða Vignisson, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, að gera það. Elliði gaf það út í síðustu viku að hann myndi ekki gefa kost á sér í prófkjörinu.
„Ég lýsi því yfir að ég er tilbúinn til að taka að mér forystuhlutverk á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningarnar í haust ef ég fæ til þess stuðning, en af hógværð sækist ég eftir fyrst til öðru sæti,“ segir Ásmundur í yfirlýsingu. Hann segir að hann hafi sýnt það að hann láti verkin tala og standi með sannfæringu sinni „eins og fram hefur komið í mörgum málum. Ég mun halda áfram á þeirri braut sem ég hef markað mér og vinna með fólkinu og atvinnulífinu í Suðurkjördæmi,“ segir hann jafnframt.
Markað sér sérstöðu í útlendingamálum
Meðal þeirra mála þar sem Ásmundur hefur fylgt sannfæringu sinni, þvert á flokkslínu, eru útlendingamál, en hann var einn tveggja þingmanna sem ekki greiddi atkvæði með nýjum útlendingalögum þegar þau voru samþykkt í þverpólitískri sátt á Alþingi í byrjun sumars.
Hann sagði breytingarnar á lögunum miða að því að auðvelda fólki aðgang að landinu. „Það er slakað á kröfum til fólks sem hingað kemur og þeim sem geta ekki framvísað pappírum um að þau sýni fram á réttmæti staðhæfinga sinna. Það er slakað á kröfum varðandi möguleika yfirvalda til að ganga úr skugga um hvort ákveðnar staðhæfingar eigi við rök að styðjast, eins og til dæmis varðandi aldur.“ Þá sé hvergi getið um öryggi landsins.
Hann sagði einnig þegar þessi mál voru rædd að mikilvægt væri að geta leyst úr málum „meints flóttafólks og hælisleitenda“ hratt og örugglega. „Æskilegt væri að það færi aldrei út af þeim stöðum sem það kemur til með flutningstæki til landsins, skipi eða flugvél. Þá er einnig æskilegt að yfirvöld hefðu þann mannafla og réðu yfir þeim úrræðum að geta vísað fólki sem sýnir ekki fram á fullnægjandi heimildir til réttmæti þess að fá að dveljast hér í landi út þegar í stað.“
Þá sagði Ásmundur að vel eigi að taka á móti þeim sem komi til Íslands í „réttmætum erindum“. Umsækjendum um hæli standi til boða húsnæði, lágmarksframfærsla og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna geðraskana. „Þetta er auðvitað vel boðið og mun betri kjör en við Íslendingar búum sjálfir við. Hér er húsnæðisskortur, við erum að samþykkja hér lög í þinginu um almennar íbúðir, að byggja 2.300 íbúðir fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna. Eldri borgarar fá ekki inn á dvalarheimilum og þeir sem þar búa búa við þau kjör að fá dagpeninga, rúmar 60 þúsund krónur á mánuði og þurfa að borga læknisþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Varla eru það þau kjör sem við ætlum að bjóða þeim útlendingum sem hingað vilja koma.“
Ásmundur hefur oft áður tjáð sig um útlendingamál og oft þannig að það hafi verið gagnrýnt. Um miðjan janúar spurði Ásmundur að því á Facebook síðu sinni hvort bakgrunnur múslima á Íslandi hafi verið kannaður, og hvort einhverjir þeirra hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í löndum þar sem „óöld ríkir meðal múslima.“ Hann sagðist í kjölfarið vera að vekja umræðu um þessi mál. „Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum að hafa áhyggjur af því að hér leynist slíkt fólk. Ég hef ekki hugmynd um það. Mér finnst að við eigum að taka umræðuna um það. Hvað við viljum gera og hvernig við viljum standa að þessu,“ sagði hann í viðtali við Vísi.
Hann var í kjölfarið gagnrýndur mikið bæði innan flokks og utan.