Formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar, Stefán Gíslason, hefur ekki lesið skýrslu Orkustofnunar (OS) þar sem aðferðir verkefnisstjórnarinnar við þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlun stjórnvalda er harðlega gagnrýnd. Stefán segir í samtali við Kjarnann að frestur til þess að skila inn athugasemdum vegna skýrsludraga um þriðja áfanga renni út í kvöld og gagnrýni OS verði ekkert tekin fyrir sérstaklega.
OS vill fleiri kosti í nýtingu
Í lok síðasta mánaðar sendi OS erindi ásamt fylgiskjali með gagnrýni stofnunarinnar til verkefnisstjórnar. Það er meðal annars mat OS að aðferðir verkefnisstjórnar séu á köflum ekki í samræmi við lög, greiningarvinna sé ófullnægjandi og utan skynsemismarka, mat sé byggt á of þröngu sjónarhorni, skortur sé á samræmi í einkunnagjöf og flokkun handahófskennd og órökstudd. OS vill til að mynda setja mun fleiri virkjanakosti í nýtingarflokk heldur en verkefnisstjórnin.
„Orkustofnun fær ekkert meiri athygli en aðrir sem senda inn umsagnir,“ segir Stefán. „Það mun sennilega koma mikið af gagnrýni í umsögnum og þær verða allar teknar fyrir sem heild. Það eru örugglega gagnlegar ábendingar í umsögn Orkustofnunar og þær verða teknar fyrir eins og aðrar athugasemdir sem berast.“ Stefán vill að öðru leiti ekki tjá sig um málið fyrr en umsóknarfrestur rennur út og allar umsagnir verði teknar saman.
Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar er að veita ráðherra ráðgjöf um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt lögum um rammaáætlun ber umhverfis- og auðlindaráðherra, í samráði og samvinnu við ráðherra þann sem fer með orkumál, að leggja fram á Alþingi tillögu um flokkun virkjunarkosta eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Sex manns eru í verkefnisstjórninni, tveir skipaðir án tilnefningar og fjórir skipaðir af stjórnvöldum og sveitarfélögum. Verkefnisstjórnin er skipuð til fjögurra ára í senn. Núverandi verkefnisstjórn tók við árið 2013 og situr til 2017.