Laun Alþingismanna og ráðherra höfðu breyst lítið í fyrra miðað við laun þeirra árið 2008. Laun embættismanna og annarra opinberra starfsmanna hafa hækkað hraðar. Forstjórar fyrirtækja í einkarekstri er sú starfstétt sem að jafnaði hefur hæst laun á Íslandi, samkvæmt álagningarskrám sem Frjáls verslun hefur unnið upp úr og birti í tekjublaði sínu. Um þetta er fjallað í nýjasta hefti vikuritsins Vísbendingar.
Í Vísbendingu er rýnt í launaþróun í völdum starfstéttum. Forstjórar hafa síðan eftir hrun að jafnaði haft hæstu launin, þó sjómenn hafi siglt framúr á árunum 2011 og 2012. Í fyrra voru forstjórar orðin langlaunahæsta starfstéttin. Næstir komu sjómenn, næstráðendur fyrirtækja og bankamenn með nokkuð sambærileg laun.
Athygli vekur að laun embættismanna, ráðherra og alþingismanna hafa dregist aftur úr, og er launaskrið þessara starfstétta ekki jafn hratt og meðal forstjóra, bankamanna eða næstráðenda. Samkvæmt gögnum Vísbendingar hafa alþingismenn og ráðherrar tæplega milljón að jafnaði í laun. Sjómenn, bankamenn og næstráðendur fyrirtækja hafa um 2,5 milljónir að jafnaði í laun og forstjórar ríflega fjórar milljónir. Sveitarstjórnarmenn, embættismenn og framkvæmdastjórar ýmissa hagsmunasamtaka hafa um 1,3 milljónir í laun að jafnaði.
Sá fyrirvari er á úttekt Vísbendingar að í tekjublaði Frjálsrar verslunar eru nafntogaðir einstaklingar yfirleitt taldir til auk þeirra sem hæst hafa launin. Þær tölur sem fjallað er um kunna því að vera hærri en gengur og gerist í ákveðnum stéttum. Hins vegar var gerð heildarúttekt á launum alþingismanna og ráðherra.
Alþingismenn og ráðherrar virðast hafa farið hvað verst út úr hruninu, enda virðast laun þeirra sáralítið hafa breyst í fyrra miðað við árið 2008. Laun þeirra lækkuðu á árunum 2008 til 2011 í krónum talið á meðan laun sveitarstjórnarmanna, embættismanna og framkvæmdastjóra ýmissa hagsmunasamtaka stóðu í stað. Laun þeirra síðarnefndu hafa síðan 2011 hækkað um 30 prósent.
Í upphafi tímabilsins voru laun allra þessara opinberu aðila á bilinu 850 til 1.000 þúsund krónur að meðaltali. Í Vísbendingu segir að alþingismenn hafi verið í miðjunni með um 969 þúsund krónur í laun. „Í lokin hafa hinir hóparnir allir hækkað í liðlega 1.300 þúsund krónur á meðan alþingismenn eru enn með um 962 þúsund.“
Kjararáð tók ákvörðun í nóvember í fyrra um hækkun launa alþingismanna og ráðherra. Eftir þá hækkun, og viðbótarhækkun sem tók gildi í sumar, er þingfararkaup 763 þúsund krónur á mánuði og laun ráðherra annara en forsætisráðherra 1.347 þúsund krónur á mánuði. Margir forstöðumenn ríkisstofnanna eru nú með umtalsvert hærri laun en allir ráðherrar landsins. Þannig er Birgir Jakobsson landlæknir með 1,6 milljónir á mánðui í laun eftir að kjararáð úrskurðaði um hækkun launa hans. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri er með sömu upphæð.
Nýlegur úrskurður kjararáðs um kjör forstöðumanna nokkurra ríkisstofnanna varð til þess að laun þeirra hækkuðu gífurlega mikið. Hækkanirnar voru afturvirkar til allt að 1. desember 2014 og bætast ofan á 7,15 prósent hækkun sem tók gildi um mánaðarmótin júní-júlí.
Kjararáð á eftir að taka ákvörðun um hækkun á launum þingmanna og ráðherra svo þau verði í takt við laun sambærilegra starfsstétta. Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu liggja drög að frumvarpi til nýrra laga um kjararáð sem mun, ef það verður samþykkt hafa miklar breytingar í för með sér fyrir ráðið. Fjallað var um drögin í Kjarnanum um miðjan síðasta mánuð.
Í drögunum er meðal annars lagt til að það verði eingöngu verkefni kjararáðs að ákvarða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, allra ráðherra, ráðuneytisstjóra og þeirra skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara.
Þá er lagt til að kjör skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands og sendiherra verði látin taka mið af kjarasamningum á hefðbundinn hátt, þe. kjarasamningum Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, og að kjör aðstoðarmanna ráðherra taki mið af kjörum skrifstofustjóra.