Framleiðendur íslenska lestrarkennslusmáforritsins Study Cake hafa ákveðið að afþakka alla fjármögnun sem þeim bauðst til að halda þróun forritsins áfram og setjast aftur á skólabekk. Þremenningarnir afþökkuðu nýverið um 35 milljóna króna fjármögnun sem átti meðal annars að hjálpa til við að koma vörunni á markað í Bretlandi. Í bréfi sem þeir birta á heimasíðu sinni segja forsvarsmenn Study Cake að í stað þess að fara í útrás, muni appið vonandi nýtast íslenskum skólum og fjölskyldum. Forritið miðar að því að efla læsi barna, í ljósi þess vaxandi vandamáls sem minnkandi lestur er.
Fjárfestar sýndu áhuga
Stofnendurnir þrír, Kjartan Þórisson, Hörður Guðmundsson og Kristján Ingi Geirsson, fengu símtal í júní í fyrra þar sem þeim var boðið að taka þátt í Startup Reykjavík. Hlutirnir gerðust hratt eftir það.
„Varan, sem fékk nafnið Study Cake, var kynnt í höfuðstöðvum Arion Banka í ágúst 2015, en síðan settumst við að í Nýsköpunarmiðstöð Íslands til þess að undirbúa okkur fyrir janúarútgáfu appsins og mögulega fjármögnun,“ segir í bréfinu. Nokkrum mánuðum síðar, í janúar síðastliðnum, var Study Cake 1.0 kynnt til sögunnar og á innan við mánuði höfðu um 5.000 manns sótt sér það. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hélt erindi á opnunarhófinu.
Í kjölfarið fóru fjárfestar að sýna vörunni áhuga og endaði það með því að hópur fjárfesta ætlaði sér að setja 35 milljónir króna inn í félagið yfir 18 mánaða tímabil. Það átti meðal annars að hjálpa til með að koma Study Cake á markað í Bretlandi.
„Það var mikill léttir að semja um fjárfestinguna og sjá að öll vinnan virtist vera að skila sér,“ segja þeir í bréfinu. „Það fylgir því hins vegar mikil ábyrgð að taka við fjármunum annara. Áður en hafist er handa við að taka við peningum, sem á að eyða í framleiðslu og kynningu — verða frumkvöðlar að spyrja sig mikilvægra spurninga. Er vandamálið sem verið er að leysa nægilega stórt? Er varan vítamín eða meðal? Eru stofnendur tilbúnir til þess að vinna í þessu næstu 5 til 10 árin, og þar af leiðandi — í okkar tilfelli — er lokamarkmiðið þess virði að fresta háskólanámi um ókomna tíð?“
Fóru frekar í skóla
Þeir komust að þeirri niðurstöðu að setjast á skólabekk á ný í stað þess að „fórna næstu 10 árum við framleiðsluna.“ Fjárfestarnir voru þar með boðaðir á fund og peningarnir afþakkaðir.
„Þetta var ein erfiðasta ákvörðun sem við höfum tekið, en við teljum okkar hagsmunum betur borgið í því að snúa aftur á skólabekk, afla okkur þekkingar og nýrra hugmynda, til þess að geta tekist á við allskyns vandamál í framtíðinni,“ segir í bréfinu.
Rúmlega 9.000 manns hafa sótt forritið í síma sína eða spjaldtölvur og hefur það fengið töluverða athygli.