Landsstjórn Framsóknarflokksins hefur ákveðið að haustfundur miðstjórnar flokksins verði haldinn í byrjun september. Á þeim fundi verður svo ákveðið hvort boðað verði til flokksþings, þar sem ný forysta verður valin. Eygló Harðardóttir, ritari Framsóknarflokksins, tilkynnti þetta á Facebook síðu sinni í gær eftir að landsstjórn kom saman og fundaði um málið. Hún sagði svo við RÚV í morgun að hún hefði ekki ákveðið hvort hún myndi bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaussyni formanni.
Fundarboð verður sent á miðstjórnarmenn á næstu dögum en einnig hefur verið boðað til aukakjördæmisþinga í norðaustur-, norðvestur-, og suðurkjördæmi þann 20. ágúst og suðvesturkjördæmi 25. ágúst. Þar verða aðferðir við val á listum ákveðnar. Reykjavíkurkjördæmin tvö halda tvöfalt kjördæmisþing þann 27. ágúst til að velja fimm efstu sætin.
Flestir þingmenn Framsóknarflokksins hafa undirstrikað að ekki verði gengið til kosninga fyrr en „stór mál“ eru kláruð á þinginu og engin dagsetning verði ákveðin fyrir kosningar fyrr en þing verður komið saman á ný. Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður hefur sagt að hún telji það hafa verið fljótfærni hjá ráðamönnum að lofa kosningum í haust. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur ekki útilokað að hann ætli sér aftur í ríkisstjórn fyrir kosningar, en hann ætlar að gefa kost á sér áfram fyrir norðausturkjördæmi. Þó eru skiptar skoðanir innan flokksins hvort Sigmundur eigi áfram erindi þangað sem formaður og þá líka sem oddiviti norðausturkjördæmis. Hann segir út í hött að ákveða kjördag strax.
Eygló hefur ekki viljað tjá sig við Kjarnann eftir að hún sagði í viðtali við RÚV að hún hafði staðið í slagsmálum við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um fjárveitingar til velferðarmála.