Haustkosningar hafa aldrei komið á dagskrá ríkisstjórnarinnar síðan Sigurður Ingi Jóhannsson tók við forsætisráðherraembætti í apríl. Ríkisstjórnin hefur haldið 22 formlega fundi síðan þá, en í tilkynningum sem sendar hafa verið fjölmiðlum eftir fundina hafa kosningar aldrei verið á dagskrá. Þá hefur formlega tillaga um næstu kosningar aldrei verið lögð fyrir ríkisstjórn.
Margt fari fram í trúnaði
Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, staðfestir í samtali við Kjarnann að haustkosningar hafi aldrei verið ræddar formlega í ríkisstjórn svo hann muni. Hann vill þó hafa þann fyrirvara á að margt sé trúnaðarmál sem rætt sé í ríkisstjórn og sum mál fari aldrei á formlega dagskrá.
„Bjarni og Sigurður Ingi hafa báðir svarað mikið fyrir þetta,“ segir Sigurður Már. „Þó að það fari ekki út sem formleg dagskrá gætu þeir hafa rætt þetta sín á milli undir ýmiskonar formerkjum.“
Mannréttindi, Tyrkland og kirkjugarðar
Ríkisstjórnin kom saman í morgun í fyrsta sinn eftir sumarfrí. Þau höfðu fundað formlega síðan 5. júlí síðastliðinn. Á dagskrá ríkisstjórnarinnar í morgun, samkvæmt tilkynningu frá forsætisráðuneytinu, var úttekt Sameinuðu þjóðanna á mannréttindamálum og tillögur á úrbótum í málefnum kirkjugarða. Þau mál komu frá Ólöfu Nordal innanríkisráðherra. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra ræddi um stöðuna í Tyrklandi eftir valdaránstillöguna.
22 fundir án kosningaumræðu
Á formlegri dagskrá ríkisstjórnarinnar þann 11. apríl, fyrsta fundi Sigurðar Inga sem forsætisráðherra, ræddi Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um upplýsingar um skattaskjól og viðbrögð stjórnvalda við þeim, Ólöf Nordal ræddi um frumvarp til laga um útlendinga og utanríkisráðherra dæddi um erlenda umfjöllun um Ísland tengdri Panamaskjölunum. Síðan þá hefur ríkisstjórnin fundað 21 sinni.
Samkvæmt stjórnarskránni verða 45 dagar að líða frá því að þingrofsheimild er samþykkt og og kosningar fara fram.