Alls hafa 936 þúsund ferðamenn verið á landinu síðan um áramótin, sem gerir rúmlega 34,1 prósent fleiri miðað við fjölda ferðamanna á tímabilinu janúar til júlí árið 2015. Rúmlega 235 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá Íslandi í júlí í gegn um Keflavíkurflugvöll. Þetta eru um 55 þúsund fleiri heldur en í júlí á síðasta ári, sem þýðir fjölgun um rúm 30 prósent. Þetta kemur fram í nýjum tölum Ferðamálastofu.
Þar kemur fram að tæp 75 prósent ferðamanna í júlí voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 25,7 prósent, en næstir komu Þjóðverjar, 10,7 prósent. Þar á eftir fylgdu Bretar, Frakkar, Kanadamenn, Svíar, Danir, Kínverjar, Svisslendingar og Spánverjar. Fjöldi Bandaríkjamanna á landinu nær tvöfaldaðist á milli ára.
Þá fjölgaði ferðum Íslendinga til útlanda um 25 prósent í júlí, samanborið við sama mánuð í fyrra. Um 55 þúsund Íslendingar fóru utan í ár, eða 10.800 fleiri en árið 2015.