Frá og með 1.september 2016 þurfa viðskiptavinir 365 sem eru í áskriftarleiðinni Endalaus GSM að greiða tvö þúsund krónur ef þeir nota meira en 30 GB á mánuði. Þá hækka þeir þakið upp í 100 GB. Þegar leiðin var var kynnt í febrúar síðastliðinn þá kom fram að áskrifendur hennar myndu „fá ótakmarkaðar mínútur og SMS óháð því hvaða símfyrirtæki móttakandi símtalsins er. Endalaust gagnamagn fylgir áskriftarleiðinni en fyrir þetta greiða notendur 2.990 krónur á mánuði.“ Þetta kemur fram á tilkynningasíðu 365, þar sem verðbreytingar á vörum og þjónustu fyrirtækisins eru birtar.
Á sama tíma mun verð í áskriftarleiðinni Endalaus heimasími hækka úr 1.990 krónum í 2.490 krónur.
365 hefur boðið upp á fjarskiptaþjónustu með síma og interneti frá haustinu 2013. Á farsímamarkaði var fyrirtækið með 3,4 prósent markaðshlutdeild í lok síðasta árs og viðskiptavinir þess samtals 14.497 talsins, samkvæmt tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar. 365 GSM er á dreifikerfi Símans, sem þýðir að fyrirtækið kaupir aðgang að því kerfi fyrir viðskiptavini sína.
Á sama tíma og Endalaust GSM var kynnt var greint frá því að netáskrifendur 365 myndu einnig fá ótakmarkað niðurhal. Með völdum tilboðspökkum, sem innihalda einnig áskriftir að sjónvarpsstöðvum 365, býðst viðskiptavinum fyrirtækisins nú að greiða eitt þúsund krónur á mánuði ofan á áskriftargjald fyrir internetið. Við bætist aðgangsgjald upp á nokkur þúsund krónur.
365 missti markaðshlutdeild á internetmarkaði á árinu 2015, þegar hlutfall hennar fór úr 13 prósentum í 12,6 prósent. Viðskiptavinum fyrirtækisins í internetþjónustu fjölgaði úr 15.551 í 15.665, eða um 114 talsins.