GAMMA Capital Management Limited, félag í eigu íslenska fjármálafyrirtækisins GAMMA, fékk á föstudag sjálfstætt starfsleyfi til að veita fjármálaþjónustu í Bretlandi frá breska fjármálaeftirlitinu. Með leyfinu verður GAMMA fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið sem hefur starfsemi í London með leyfi breskra yfirvalda frá því að íslensku bankarnir hrundu í október 2008. GAMMA hóf starfsemi í London fyrir rúmu ári síðan en hún var á grundvelli íslensks starfsleyfis. Morgunblaðið greinir frá.
Í blaðinu er rætt við Gísla Hauksson, forstjóra GAMMA, sem segir að fyrirtækið verði nú í enn betri stöðu til að veita viðskiptavinum sínum þjónustu á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars þegar kemru að erlendum verkefnum, fjárfestingum, fjármögnun og greiningavinnu. GAMMA rekur fjárfestingasjóð, Total Return Fund, sem hefur heimildir til að fjárfesta erlendis. Gísli segir að þær heimildir verði nýttar þegar gjaldeyrishöftum verði aflétt.
Starfsemi GAMMA hefur vaxið hratt á undanförnum árum, en fyrirtækið var stofnað árið 2008. Það rekur ýmiskonar sjóði, veitir fjárfestingaráðgjöf og stýringu á fjármálagerningum. Einn sjóðanna í stýringu hjá GAMMA á Almenna leigufélagið. Sjóðurinn hefur keypt um eitt þúsund íbúðir víða á höfuðborgarsvæðinu sem Almenna leigufélagið leigir út fyrir hann í langtímaleigu. Það tvöfaldaði þann fjölda eftir að hafa keypt Leigufélagið Klett af Íbúðalánasjóði á 10,1 milljarð króna í sumar. Almenna leigufélagið er stærsta félag sinnar tegundar á Íslandi.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu GAMMA er fyrirtækið með um 85 milljarða króna í stýringu m.a. fyrir lífeyrissjóði, tryggingarfélög, innlendar og erlendar bankastofnanir, fyrirtæki og einstaklinga. Sú upphæð hefur nær tvöfaldast á einu ári.