Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, verði að setja hlutina í rétt samhengi vilji hann láta taka sig alvarlega.
„Hefur Kári Stefánsson gleymt því að þegar vinstri stjórnin tók við árið 2009 voru fordæmalausar aðstæður á Íslandi og gjaldþrot blasti við þjóðinni,“ spyr Jóhanna í stöðufærslu á Facebook. Tilefnið er skrif Kára um íslenskt heilbrigðiskerfi sem birtist í morgun. Þar sagði Kári að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, með Jóhönnu í forsvari, hafi holað heilbrigðiskerfið að innan þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Jóhanna segir að sú ríkisstjórn hafi tekið við stjórn landsins við erfiðustu efnahagslegu skilyrði sem verið hafa í sögu lýðveldisins.
„Engu að síður setti ríkisstjórnin sér það markmið að verja velferðarkerfið eins og kostur væri í þeim niðurskurði sem óhjákvæmilegt var að ráðast í. Bæði AGS og virtir nóbelsverðlaunahafar í hagfræði hafa sagt það kraftaverki líkast hvernig til tókst við endurreisn Íslands, ekki síst við að verja innviði velferðarkerfisins,“ skrifar Jóhanna.