Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir engan Framsóknarmann líklegan til þess að bjóða sig fram sem formann gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
„Ég vil fá Sigmund Davíð af krafti inn í baráttuna á ný til að leiða flokkinn,“ sagði Gunnar Bragi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Ég er sannfærður um að hann verði formaður, enda sé ég engan annan sem ætlar að taka við eða getur tekið við.“
Annað mál ef Sigmundur stígur til hliðar
Gunnar Bragi var þá spurður út í áform Eyglóar Harðardóttur, sem hefur ekki útilokað að bjóða sig fram gegn honum. Gunnar Bragi sagði þá að Eygló hefði sagt að Sigmundur væri formaður og á meðan svo væri þá mundi hún styðja hann.
„En ef hann ákveður að stíga til hliðar er það annað mál og þá eru eflaust fleiri sem færu að hugsa sig um,“ sagði Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi og Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fóru á fund Sigmundar á heimili hans í síðustu viku. Bæði sögðu ekkert óeðlilegt við fundinn og Gunnar Bragi sagðist í Morgunútvarpinu oft heimsækja „aðra ráðherra“ á heimili þeirra.
Glapræði að ákveða kjördag
Varðandi orð sín í Morgunblaðinu í gær um að stjórnarandstaðan væri frek að biðja um dagsetningu fyrir kosningar og hvers vegna ekki væri búið að ákveða kjördag, sagði Gunnar Bragi að það væri algjört glapræði að ákveða kjördag strax.
„Um leið og dagsetning kemur verður stjórnarandstaðan komin með ákveðið vopn í hendurnar,“ sagði hann og bætti við að stjórnarandstaðan gæti þá tekið þingið í gíslingu, tafið með málþófi og komið í veg fyrir að mál kæmust í gegn. „Um leið og stjórnarandstaðan er til í að vinna með okkur, þá fær hún kjördag,“ sagði hann.