Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, leiðtogar ríkisstjórnar Íslands, hafa lagt það til að kosið verði til Alþingis 29. október næstkomandi. Þetta var lagt fyrir á fundi þeirra með forsvarsmönnum stjórnarandstöðunnar í dag. Þeir tóku vel í tillöguna. Frá þessu er greint á RÚV.
Þar segir einnig að Bjarni telji að hægt verði að klára helstu mál ríkisstjórnarinnar fyrir þann tíma en þá þurfi að lengja það þing sem nú stendur yfir. Auk þess verði fjárlagafrumvarp ekki lagt fram fyrr en eftir kosningar.
Ekki hefur verið eining um það á meðal þingmanna stjórnarflokkanna hvort kjósa eigi í haust líkt og lofað var þegar ríkisstjórn Sigurðar Inga var mynduð í apríl, eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér vegna Wintris-málsins, eða hvort að ríkisstjórnin ætti að sitja út kjörtímabili.
Sigmundur Davíð hefur sjálfur talað mjög fyrir því að ekki verði kosið í haust og fengið stuðning á meðal sumra þingmanna flokks síns. Bjarni hefur hins vegar verið skýr í sinni afstöðu. Í lok júlí sagði hann við RÚV: „Þegar við endurnýjuðum samstarf flokkanna urðu breytingar í ríkisstjórninni og við boðuðum á sama tíma að við ætluðum að ljúka ákveðnum verkefnum og ganga svo til kosninga. Ég sé ekki neitt hafa breyst í þeim efnum og sé í sjálfu sér ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að við kjósum seint í október, sem er dagsetning sem nefnd hefur verið oft í þessu sambandi.“
Sigurður Ingi hefur einnig talað skýrt um að kosningar fari fram í haust.