Landsbankinn hagnaðist um 11,3 milljarða króna á fyrri hluta ársins 2016. Það er rúmum milljarði króna minna en hagnaður hans var á sama tímabili í fyrra. Helsta ástæða þess að hagnaður nú er minni felst í minni hagnaði af hlutabréfum. Aðrar rekstrartekjur Landsbankans, sem ná meðal annars yfir hagnað af hlutabréfum, voru 7,3 milljarðar króna á fyrri hluta ársins 2015 en 4,4 milljarðar króna á sama tímabili í ár. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli lækkar einnig umtalsvert, og fer úr 10,4 prósent í 8,6 prósent. Rekstrarkostnaður hækkar á milli ára um 1,6 prósent. Öll sú hækkun og meira til er vegna aukins launakostnaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum vegna hálfsársuppgjörs hans.
Eigið fé tæplega 250 milljarðar
Þar segir einnig að heildareignir bankans hafi dregist saman um rúm fimm prósent síðastliðið ár og eru nú 1.110 milljarðar króna. Þetta er vegna þess að í apríl hafi verið ákveðið að greiða hluthöfum bankans 28,5 milljarða króna í arð. Íslenska ríkið á Landsbankann að mestu en starfsmenn hans eiga einnig lítinn hlut. Eigið fé Landsbankans í lok júní síðastliðins var 247,3 milljarðar króna.
Hreinar vaxtatekjur bankans voru 17,6 milljarðar króna og hækkuðu um níu prósent á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 3,9 milljörðum króna og hækkuðu um 14,7 prósent frá sama tímabili árið áður.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að bankinn mælist nú með hærri markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði en nokkru sinni áður, 37,6 prósent. „Markaðshlutdeild á fyrirtækjamarkaði hefur einnig aukist og niðurstöður úr þjónustukönnunum sýna að einstaklingar jafnt sem fyrirtæki kunna vel að meta þjónustu bankans. Umsvifin í eignastýringu aukast jafnt og þétt og bankinn er í forystusveit þegar kemur að viðskiptum í kauphöll. Okkur þykir afar ánægjulegt að fleiri einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í að beina viðskiptum sínum til bankans.“
Hagnaður frá hruni um 190 milljarðar
Landsbankinn hagnaðist um 36,5 milljarða króna í fyrra. Líkt og áður sagði skýrist sá hagnaður að mestu vegna aukins hagnaðar af hlutabréfum og markaðsskuldabréfum og vegna leiðréttingar á söluhagnaði hlutdeildarfélags hans.
Samtals nemur hagnaður Landsbankans frá hruni 190,1 milljörðum króna.