Sjóðir í stýringu bandaríska sjóðastýringafyrirtækisins Eaton Vance Management, sem er stórtækur aflandskrónueigandi, hafa á síðustu vikum og mánuðum keypt hlutabréf í mörgum af þekktustu skráðu fyrirtækjum Íslands. Nú er svo komið að tveir sjóðir á vegum þess - Global Macro Portfolio og Global Macro Absolute Return Advantage - eru samanlagt komnir í hóp tíu stærstu hluthafa Eimskipa og Reita fasteignafélags. Þá er annar sjóðurinn einnig kominn á lista yfir 20 stærstu hluthafa Haga, stærsta smásölufyrirtækis á Íslandi. Þá hafa sjóðirnir eignast 1,7 prósent hlut í HB Granda, eina skráða sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Frá þessu er greint í DV í dag. Þar segir að samanlagt virði eignarhluta sjóðanna í þessum fjórum fyrirtækjum sé vel á fimmta milljarð króna.
Eaton Vance er einnig á meðal stærstu eigenda aflandskrónueigenda á Íslandi. Samanlagt var talið að sjóðir fyrirtækjanna ættu um 30 prósent af aflandskrónuhengjunni sem var til staðar í vor.
Seðlabanki Íslands hélt tvö aflandskrónuútboð í júní þar sem eigendum aflandskróna bauðst að skipta þeim yfir í evrur gegn afslætti. Fjöldi bandarískra sjóða sem eiga slíkar ákváðu að taka ekki þátt í útboðunum tveimur, en í því síðari bauðst bankinn til að kaupa krónur þeirra fyrir 190 krónur á hverja evru. Fjárhæð samþykktra tilboða í báðum útboðunum var 83 milljarðar króna og hækkaði einungis um fimm milljarða króna milli útboða. Alls voru 188 milljarðar króna boðnir í útboðinu en heildarumfang aflandskrónuvandans var fyrir það um 319 milljarðar króna. Sjóðir Eaton Vance voru á meðal þeirra sem tóku ekki þátt í útboðunum.
Sjóðirnir ætla heldur ekki að sætta sig við að eignir þeirra verði settar inn á nær vaxtalausa reikninga í refsingarskyni fyrir að taka ekki þátt í útboðunum á því gengi sem Seðlabankinn hefur boðið þeim. Þess í stað hafa sjóðirnir falið lögmanni sínum að kanna grundvöll fyrir mögulegri málshöfðun á hendur íslenska ríkinu auk þess sem þeir hafa kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna lagasetningar sem samþykkt voru aðfaranótt 23. maí síðastliðins, og þeir telja að feli í sér eignarupptöku og brot á jafnræðisreglu.