Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, varð í fyrsta sæti í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu. Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður, lenti í öðru sæti og Ásta Guðrún Helgadóttir þingmaður í því þriðja. Næstu sæti skipa Björn Leví Gunnarsson, Gunnar Hrafn Jónsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Viktor Orri Valgarðsson, Halldóra Mogensen, Andri Þór Sturluson og í tíunda sæti varð Sara E. Þórðardóttir Oskarsson. Þór Saari, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar, lenti í 11. sæti.
Fá að velja sér kjördæmi
Samkvæmt upplýsingum frá Sigríði Bylgju Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Pírata, fær sigurvegarinn í prófkjörinu fyrstur að velja sér sæti að eigin vali á einum af þremur listunum. Svo fær sú eða sá sem lenti í öðru sæti að velja sér sæti og svo koll af kolli þar til annað hvort öllum frambjóðendum hefur verið úthlutað sæti á lista eða allir listarnir eru orðnir fullmannaðir með samtals 70 einstaklingum.
105 voru í framboði Pírata á höfuðborgarsvæðinu og greiddu 1034 flokksmenn atkvæði. Prófkjörið stóð yfir frá 2. ágúst til klukkan 18 í dag, 12. ágúst. Til stóð að birta niðurstöður um leið og kosningu lauk, en talning atkvæða frestaðist. Kosningin var sameiginleg fyrir þrjú kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi suður og norður og suðvesturkjördæmið. Dreift verður niður á þrjá framboðslista.
Smári leiðir í suðurkjördæmi
Smári McCarthy leiðir lista Pírata í suðurkjördæmi, en prófkjörinu lauk á miðnætti í gærkvöldi. Smári hefur verið virkur í starfi Pírata frá því að flokkurinn var stofnaður og leiddi lista flokksins í kjördæminu í þingkosningunum 2013, en náði ekki kjöri. Í öðru sæti á lista Pírata í kjördæminu verður Oktavía Hrund Jónsdóttir, í þriðja sæti verður Þórólfur Júlían Dagsson og í því fjórða Álfheiður Eymarsdóttir. 113 manns kusu í prófkjörinu og voru 25 í framboði.
Einar leiðir í norðaustur
Framboðslisti Pírata í norðausturkjördæmi varð ljós í lok júní. Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, framhaldsskólakennari á Akureyri, leiðir listann. Guðrún Ágústa Þórdísardóttir rekstrarfræðingur er í öðru sæti og Hans Jónsson í því þriðja. 78 flokksmenn kusu í prófkjörinu og voru 14 í framboði. Prófkjör Pírata í norðvesturkjördæmi stendur yfir og lýkur á mánudag, 15. ágúst. Þar eru 17 í framboði.