Allir þingmenn, að undanskildum mennta- og menningarmálaráðherranum Illuga Gunnarssyni, hafa nú gefið út opinberlega hvort þeir hyggist gefa kost á sér áfram á næsta kjörtímabili. Framboðsfrestur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum rennur út klukkan 16 í dag. Illugi er nú staddur í Rio de Janiero í Brasilíu til að vera viðstaddur Ólympíuleikana. Hann var í beinni útsendingu á Facebook í gær þar sem hann var meðal annars spurður hvort hann ætli að gefa kost á sér til áframhaldandi þingmennsku, en hann svaraði ekki spurningunni. Illugi skipaði fyrsta sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu kosningum. Ekki hefur náðst í Illuga undanfarnar vikur.
Öll forystusætin komin
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að bjóða sig fram í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður tilkynnti í gær að hann sæktist eftir því að leiða listann í sömu kjördæmum og því er líklegt að Ólöf og Guðlaugur leiði sitthvort kjördæmið. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vill leiða lista sjálfstæðismanna í norðausturkjördæmi, Haraldur Benediktsson þingmaður og Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, ætla að bítast um oddvitasætið í norðvesturkjördæmi, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra, Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður, og Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafa öll gefið kost á sér til að leiða listann í Suðurkjördæmi. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, er svo í suðvesturkjördæmi. Þannig eru öll kjördæmin komin með framboð í oddvitasætin. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, gaf það út fyrir nokkru síðan að hún myndi hætta í pólitík nú í haust.
Lilja, Karl og Þorsteinn vilja leiða Framsókn í Reykjavík
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra Framsóknarflokksins, og Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tilkynntu í gær og í morgun og þau ætli að gefa kost á sér til þess að leiða listana í Reykjavíkurkjördæmunum. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur einnig gefið kost á sér í fyrsta sætið í Reykjavík norður.
Dagsetning komin fyrir haustkosningar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lögðu til við stjórnarandstöðuna í gær að kosið verði til Alþingis 29. október næstkomandi. Tekið var vel í það og þessi dagsetning því ákveðin. Bjarni telur að hægt verði að klára helstu mál ríkisstjórnarinnar fyrir þann tíma en þá þurfi að lengja það þing sem nú stendur yfir. Þá verður fjárlagafrumvarp ekki lagt fram fyrr en eftir kosningar.