Lilja D. Alfreðsdóttir, sem verið hefur utanríkisráðherra frá því í apríl, ætlar að sækjast eftir því að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum í haust. Nokkuð ljóst var í hvað stefndi þegar Karl Garðarsson tilkynnti í gær að hann ætlaði sér að sækjast eftir oddvitasæti í Reykjavíkurkjördæmi norður, en hann var í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu kosningum. Kjarninn spáði m.a. þessari niðurstöðu í morgunpósti sínum í morgun.
Sú sem leiddi flokkinn þar í kosningunum í apríl 2013, Vigdís Hauksdóttir, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi kosningum. Kosið verður á milli þeirra sem gefa kost á sér í fyrstu sætin á tvöföldu kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Reykjavík 27. ágúst.
Lilja, sem hefur verið utanþingsráðherra frá því í apríl, greinir frá ákvörðun sinni í Fréttablaðinu í dag en segist þar ekki ætla að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sitjandi formanni flokksins ef haldið verður flokksþing í aðdraganda kosninga. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson, funduðu með leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna í gær og tilkynntu þeim að kosið yrði 29. október að óbreyttu.
Prófkjöri Pírata á Suðurlandi lauk í gærkvöldi. Niðurstöður þess voru þær að Smári McCarthy mun leiða listann, en hann sóttist eftir því. Smári hefur verið virkur í starfi Pírata frá því að flokkurinn var stofnaður og leiddi lista flokksins í kjördæminu í þingkosningunum 2013 en náði ekki kjöri. Í öðru sæti á lista Pírata í kjördæminu verður Oktavía Hrund Jónsdóttir, í þriðja sæti verður Þórólfur Júlían Dagsson og í því fjórða Álfheiður Eymarsdóttir. 113 manns kusu í prófkjörinu.
Prófkjöri Pírata í Reykjavíkurkjördæmunum og í Suðvesturkjördæmi lýkur síðar í dag.