Brendan Dassey, annar mannanna sem fjallað var um í bandarísku þáttaröðinni Making a Murderer, var sýknaður af ákæru um morð og kynferðisbrot fyrir dómstólum í gær. Samkvæmt ákvörðun dómstóla verður honum sleppt úr fangelsi innan 90 daga, er fram kemur í New York Times.
Þættirnir fjölluðu mest megnis um frænda Dassey, Steven Avery, sem var dæmdur fyrir morð og nauðgun árið 2007 en Dassey var dæmdur meðsekur. Frændurnir voru dæmdir fyrir að myrða og nauðga Teresu Halback, 25 ára ljósmyndara, og fengu lífstíðarfangelsisdóm. Þáttaröðin, Making a Murderer, fjallaði um rannsókn málsins og varpaði ljósi á ýmsa þætti sem bentu til þess að verulegir vankantar hefðu verið til staðar hjá lögreglunni. Þeir vöktu gríðarlega athygli og ráku sögu Avery sem var dæmdur í fangelsi fyrir kynferðisbrot árið 1985. Hann sat inni í 18 ár en var sleppt árið 2003 eftir að DNA-sýni sýndi fram á sakleysi hans. Avery fór í kjölfarið í mál við sýsluna þar sem hann var dæmdur og krafðist 36 milljón dala í miskabætur.
Í nóvember 2005 var hann síðan ákærður fyrir morð og hefur setið inni síðan, ásamt Dassy.
Í byrjun ársins höfðu yfir hundrað þúsund manns skrifað undir undirskriftarlista á síðunni Change.org og fóru fram á að frændurnir yrðu náðaðir af forseta Bandaríkjanna. Auk þess hafa hátt í 20 þúsund manns skrifað undir formlega beiðni til Hvíta hússins þar sem farið er fram á hið sama.
Dómurinn í gær hafði engin áhrif á Avery, en ekki er ljóst hvort mál hans verði opnað að nýju.