Ákveðið hefur verið að leggja af þá venju að einn af handhöfum forsetavalds fylgi forseta Íslands til og frá Keflavíkurflugvelli þegar hann fer til útlanda í embættiserindum. Þetta er gert að ósk nýs forseta, Guðna Th. Jóhannessonar.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannessonar forsætisráðherra við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar. Hingað til hefur það tíðkast að einn handhafi forsetavalds, forsætisráðherra, forseti Hæstaréttar eða forseti Alþingis, fylgi forseta til og frá flugvellinum.
Þannig kemur fram í svari Sigurðar Inga að Ólafi Ragnari Grímssyni hafi þrettán sinnum verið fylgt út á flugvöll árið 2012, fjórtán sinnum árið 2013, sex sinnum árið 2014 og tólf sinnum árið 2015.
Handhafar forsetavaldsins hafa ekki fengið sérstaklega greitt fyrir að fylgja forsetanum með þessum hætti.