Í Bandaríkjunum hefur fjárfesting í kannabisræktun og þróun lyfja úr kannabis aukist mikið, ekki síst í Washington-ríki, þar sem kannabisneysla eru stunduð löglega. Mörg lítil fyrirtæki hafa orðið til á skömmum tíma, sem sinna ræktun, sölu og dreifingu á kannabisefnum.
Einn þeirra nú hefur veðjað á mikinn vöxt á þessar umdeildu syllu – sem er ólögleg í einu ríkinu en lögleg í öðru, eins og ótrúlegt og það hljómar – er Roger Jenkins, fyrrverandi bankamaður hjá Barclays bankanum breska. Hann var árum saman með hæstlaunuðu bankamönnum Barclays og hafði það verkefni að safna fjármunum frá Miðausturlöndum inn í eignastýringu bankans, einkum sjóði sem reknir voru í sjálfstæðum rekstrarfélögum. Þá var hann einnig í því að safna nýjum hluthöfum á svæðinu.
Gerir út frá Kaliforníu
Hann hætti störfum árið 2009 og hefur lítið farið fyrir honum síðan þá, en nú hefur sjóður í hans eigu keypt land í Kaliforníu og hyggst hann stunda þar kannabisræktun, löglega, og vinna efni til sölu. Bloomberg greinir frá því í dag, að Jenkins hafi verið í lykilhlutverki innan Barclays þegar bankinn náði í miklar fjárhæðir frá umdeildum fjárfestum í Miðausturlöndum, samtals um 15,5 milljarða Bandaríkjadala. Þessar fjárfestingar björguðu fjárhag bankans mitt í hruninu, haustið 2008, og gerðu það að verkum að bankinn þurfti ekki á ríkisaðstoð að halda eins Royal Bank of Scotland, og raunar margir fleiri.
En af hverju er Jenkins nú farinn að horfa í kannabisefnin? Ástæðan er ör stækkun markaðar fyrir lyf sem unnin eru úr kannabis, og síðan vaxandi þrýstingur í mörgum ríkjum Bandaríkjanna, þar sem notkun kannabisefna er lögleg til eigin nota. Talið er að markaður með lækningalyf sem unnin eru úr kannabisefnum í Kaliforníu muni margfaldast á næstu árum og verði eftir rúmlega þrjú ár 2,6 milljarða Bandaríkjadala, samanborið við undir einn milljarða núna. Á landsvísu verður geirinn síðan margfalt stærri, og ef fleiri ríki löglega kannabisneyslu hjá fullorðnum þá gæti orðið til risavaxinn iðnaður sem Jenkins telur að þurfi fagþekkingu frá fjárfestum.
Kannabissprotar
Eitt stærsta fyrirtækið sem nú leiðir þróun í kannabisfjárfestinum er Privateer Holdings, sem er staðsett í Seattle í Washington ríki. Milljarðamæringurinn Peter Thiel hefur lagt því fyrirtæki til 75 milljónir Bandaríkjadala, eða jafnvirði tæplega 10 milljarða króna, en fyrirtækið er einkum að framleiða og skipuleggja sölu á maríjúana, sem unnið er úr kannabisplöntum.
Ekki laus allra mála
Þó Jenkins sé farinn að huga að kannabisefnunum þá er hann ekki laus undan rannsókn breskra yfirvalda, sem eru með fjármögnun Barclays bankans, haustið 2008, til rannsóknar. Málið snýst meðal annars um hvort fjárfestingar frá fjárfestum í Miðausturlöndum hafi verið löglegar. Rannsókn SFO, efnahagsbrotadeildarinnar í Bretlandi, hófst árið 2012 og kemur fram í umfjöllun Bloomberg að líkur standi til þess að henni ljúki í lok árs. Meðal þess sem er verið að skoða, er fjárfesting frá Al-Thani fjölskyldunni í Qatar í bankanum, haustið 2008. Í heild keypu fjárfestar 13 prósent hlut í bankanum fyrir 7,5 milljarða punda, eða sem nemur um 1.300 milljörðum króna.