Eini prentmiðill landsins sem tapaði ekki lesendum í síðasta mánuði var Morgunblaðið, sem er gefið út sex sinnum í viku. Lestur hans stóð jókst um 0,3 prósentustig á milli mánaða og er nú 28,1 prósent. Lestur blaðsins hefur samt sem áður dregist mikið saman á undanförnum árum, en hann mældist 42 prósent í byrjun árs 2009. Síðan þá hefur lestur þessa stærsta áskriftarblaðs þjóðarinnar minnkað um 33 prósent. Þetta kemur fram í nýjustu könnun Gallup á lestri prentmiðla.
Fréttablaðið, sem dreift er frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar, heldur áfram að tapa lestri. Nú er svo komið að 47,6 prósent Íslendinga lesa fríblaðið. Lestur blaðsins fór undir 50 prósent í fyrsta sinn frá árinu 2002 í nóvember í fyrra. Það er fyrst og fremst yngra fólk sem er hætt að lesa Fréttablaðið. Í síðasta mánuði fór lestur þess hjá fólki á aldrinum 18-49 ára niður í 40,1 prósent. Fyrir sex árum síðan lásu um 64 prósent allra í aldurshópnum Fréttablaðið. Lesturinn hefur því dregist saman um tæp 38 prósent á nokkrum árum.
Lestur Fréttatímans, sem kemur út í frídreifingu tvisvar í viku, heldur áfram að dala og mælist nú 33,2 prósent. Hann hefur aldrei mælst lægri síðan að blaðið hóf að koma út. DV, sem kemur út tvisvar í viku, tapar mestum lestri allra á milli mánaða, eða 0,9 prósentustigum. Nú lesa 8,7 prósent landsmanna blaðið. Líkt og hjá Fréttablaðinu þá er það fyrst og síðast fólk undir fimmtugu sem er að hætta að lesa DV. Í síðasta mánuði lásu 4,2 prósent Íslendinga á aldrinum 18-49 ára það.
Viðskiptablaðið, áskriftarblað sem kemur út einu sinni í viku, er nú lesið af 10,2 prósent landsmanna. Lestur þess hefur þó dalað umtalsvert á þessu ári. Í lok árs 2015 lásu 13,4 prósent landsmanna blaðið. Lesturinn hefur því minnkað um tæpan fjórðung síðan þá.